Æviatriði
Ármann Reynisson fæddist árið 1951 í Reykjavík. Hann hefur tekið virkan þátt í menningar- og viðskiptalífi á Íslandi allt frá því hann snéri heim frá Englandi árið 1982 að loknu námi við The London School of Economics.
Höfundurinn hefur ekki farið hefðbundnar leiðir í lífinu heldur lagt áherslu á það að skapa eitthvað nýtt og áhugavert í þeim störfum sem hann hefur tekið sér fyrir hendur og fyrir það þótt litríkur persónuleiki í heimalandi sínu. Fyrstu árin eftir nám sitt var hann einn af áhrifamestu brautryðjendum á íslenska fjármálamarkaðinum sem þá var áratugum á eftir öðrum slíkum í vestrænum ríkjum. Á tímabili samanstóð viðskiptaveldi Ármanns af fjölda fyrirtækja á ólíkum sviðum atvinnulífsins. Hann var auk þess öflugur stuðningsmaður menningar og lista, listaverkasafnari og úthlutaði úr tónlistarsjóði sínum til ungs tónlistarfólks. Þá var ævintýraljómi yfir veislum Ármanns hvað varðar glæsileika og áhugaverða gesti hvaðanæva úr þjóðlífinu.
Viðskipti Ármanns Reynissonar og heimili var lagt í rúst á einni nóttu af opinberum aðilum sem áttu á þeim tíma erfitt með að skilja nútímaviðskipti og starfsemi frumkvöðla. Eftir stóð Ármann á sviðinni jörð, nánast sviptur mannlegum réttindum, auk þess var hann dreginn í gegnum réttarkerfi landsins í fimm ár að viðbættri eins árs fangelsisvist. Síðar kom í ljós að Ármann var dæmdur fyrir viðskipti sem þóttu hin
eðlilegustu þegar fram liðu stundir. Þetta sex ára tímabil olli straumhvörfum í lífi Ármanns Reynissonar. Í staðinn fyrir að gefast upp þegar öll spjót stóðu á honum, þá réri hann lífróður og byggði upp ný viðskipti sem hann hefur stundað allar götur síðan heiman frá sér. Hann snéri baki við hinu ljúfa lífi og í staðinn tók við íhugun, líkamsrækt og náttúruskoðun.
Magnþrungin lífsreynsla og innri barátta varð til þess að kenna Ármanni að sjá í gegnum mannlífið og tilveruna en ekki eingöngu það yfirborð sem fólk horfir oftast nær á en kafar sjaldnast dýpra. Það var í ágúst árið tvöþúsund að þörfin til þess að tjá sig í sögum losnaði úr læðingi. Þá settist Ármann niður og skrifaði fyrstu vinjettuna og þar með brast stíflan, átján bækur hafa komið út á jafnmörgum árum. Það uppgötvaðist eftir að Ármann sendi frá sér fyrstu vinjettubókina að þar með kynnti hann nýja bókmenntagrein inn í eittþúsund ára sögu íslenskra bókmennta.