Vinjettur VI

Í Vinjettum VI er kastljósinu beint að innviðum réttarfars og dægurmálum samtímans. Auk þess er þar að finna fjölbreytt efni úr daglega lífinu, náttúrunni og sögur frá nokkrum erlendum borgum.
Ármann Reynisson kemur fólki ennþá á óvart og myndrænn textinn er orðinn vinsælt lesefni í hraða nútímans innanlands sem utan og til upplesturs við ýmis tækifæri. Vinjetturnar hafa nú þegar haslað sér völl á Íslandi.


Kaflar

Lögmaðurinn frómi

Stöku sinnum má sjá vígalegan mann strunsa út eða inn úr dómhúsunum klæddan dökkri skikkju óhnepptri með ljósblárri líningu um kraga er liggur niður að framanverðu. Vindhviður feykja klæðnaðinum til og frá en þegar vindur kemst innundir þá þenst bakhlutinn út eins og á seglskipi og hlæjandi lögmaðurinn virðist takast á loft. Jafnan hefur lögmaðurinn frómi næg stórmál að glíma við og er hann álitinn einn sá snjallasti í sinni grein og sjálfsálitið uppmálað. Enda er mannfólkið duglegt að leika sér að storminum í vatnsglasinu og málin verða flóknari með ári hverju og á þessu nærist réttarfarið.

Kommúnistinn

Kalda stríðið geisaði ekki eingöngu milli stjórnmálamanna og stórveldanna í austri og vestri heldur einnig milli fólks og jafnvel barna á afskekktustu krummaskuðum. Fólk skiptist í flokka eftir pólitískum skoðunum og átti í illdeilum þess vegna, fjölskyldur klofnuðu í fylkingar og blessuð börnin öpuðu eftir í stríðsleikjum sínum. Á aðventunni mátti þekkja pólitískar skoðanir fólks af litum á jólaseríum sem það hengdi á svalir húsa sinna.

Stórskáldið

Í tvílyftum embættisbústað langt fjarri heimaslóðum er veglegur hringstigi áberandi miðsvæðis í húsinu er tengir saman hæðirnar.
Glerlyfta gengur upp og niður í opinu innan stigans fyrir íbúana sem stöðugt eru á fartinni. Þetta fyrirkomulag vekur jafnan athygli gesta í móttökum fyrir opinbera gesti sem haldnar eru á fyrstu hæð. Það virðist sem stiginn sé ekki notaður af öðrum en efnilegum syni embættishjónanna.

Kossar

Samskipti einstaklinga sem ná náið saman eru margvísleg og oft erfitt að útskýra hvað það er nákvæmlega sem tengir þá. Sum þeirra vara ævilangt, önnur eru bundin við eitt skipti og allt þar á milli. Kossar koma til sögunnar þegar ísinn er brotinn milli fólks og manneskjur vilja sýna hvor annarri ást eða væntumþykju, oftast nær að ákveðnum tíma liðnum en stundum við fyrstu kynni. .

Þriðja hjartað

Út við ysta nes þar sem brimið brýtur við ströndina og slær mishratt í takt við hjörtu íbúanna rís Grindavík á flatlendi umhverfis bryggjuna.
Í brælu er lífæð staðarins yfirfull af misstórum bátum en tæmist þegar færi gefst til fiskjar á gjöfulum miðum. Líflegt er um að litast þegar fiskibátarnir koma drekkhlaðnir umvafðir fuglamergð og landa vænum fiski fyrir þjóðarbúið. Í þessu umhverfi lifir og hrærist maður ljós yfirlitum, einn fárra jarðarbúa sem þriðja hjartað bærist í.

Lesa meira

Aðrar bækur