Vinjettur VIII

Ármann Reynisson fjallar um lífið og tilveruna í Færeyjum í lifandi frásögn og myndrænum texta. Einnig eru í Vinjettum VIII fjölbreyttar frásagnir úr daglega lífinu á Íslandi, náttúru landsins og þar bregður einnig fyrir Castro á Kúbu. Vinjetturnar hafa getið sér gott orð víða um heim og þykja tilvaldar til umhugsunar og upplesturs.


Kaflar

Castro

Í kalda stríðinu er máluð svarthvít mynd af þjóðarleiðtogum í fjölmiðlum, allt eftir því hvort þeir helga sig stefnu einkaframtaks eða kommúnisma. Ekki er að undra þótt framhleypinn Íslendingur sé haldinn ótta þegar hann kemur til Kúbu nokkru áður en þessi barnalega heimsmynd kollvarpast. Þar stjórnar Castro sem gerir byltingu öreiganna ásamt félögum sínum. Hann hefur ríkt lengur en flestir aðrir og staðið af sér hundruð morðtilrauna og langvarandi hafnbann voldugasta ríkis heims.

Listsýningin

Oft er mikið um dýrðir þegar myndlistarsýningar eru opnaðar enda er ærið tilefni til þess að samgleðjast listamanninum með góðan árangur. Hann hefur lagt nótt við dag vikum saman til þess að ljúka við listaverkin og ekki síst að koma þeim vel fyrir í sýningarsal. Boðskort eru send út til listunnenda og hugsanlegra kaupenda, að ógleymdu fjölmiðlafólki sem er nauðsynlegur tengiliður til kynningar á viðburðinum fyrir alþjóð. Það hagar þannig til að ungur og efnilegur listamaður sem lætur mikið á sér bera opinberlega undirbýr stóra sýningu í vel völdum salarkynnum. Þannig ætlar hann að slá rækilega í gegn. Þegar maðurinn hefur lokið við allan undirbúning og uppsetningu á verkunum nokkru áður en boðsgestirnir koma ákveður hann að fara í bað og skipta um föt heima hjá sér, enda er til þess ætlast að menn séu sómasamlega til fara þegar svo mikið liggur við.

Færeyjar

Færeyjar eru á að líta sem veðurbarðir fjallatoppar er skaga upp úr Atlantshafinu milli tveggja heimsálfa. Víða í gegnum þær eru jarðgöng með iðandi umferð milli áfangastaða. Form fjallanna eru ávöl og mjúk eftir endalausa fínslípun veðráttunnar og fossandi lækir liðast niður hlíðarnar og virðast vera sem gljáandi gler í landslaginu. Athygli vekur að það á einnig við um veðurbarin skýin sem sveima nær daglega yfir. Eyjarnar geta tekið á sig margs konar dýramyndir, líkjast ljóni á varðbergi, liggjandi hesti eða kind á beit. Við klettótta ströndina þar sem lítt gætir flóðs og fjöru kúra bæir í sendnum vogum og víkum og þjóðleg húsagerðarlistin setur heildarsvip á landið. Það á einnig við um lystilega gerðar grjóthleðslur í hallandanum sem liðast sem slöngur væru um landslagið og inni í byggðunum.

Nykurinn

Í vatni nokkru á Sandey býr nykur sem samansettur er af hálfum manni að ofanverðu og nauti að neðan með sterklegan hala. Hann heldur sig jafnan undir vatnsyfirborðinu, nema hann hafi verk að vinna á landi og þá helst þegar engin mannvera er á ferli. Skepnan hefur ekkert nafn og blandar helst ekki geði við önnur dýr né menn. Þeir eru lánsamir sem fá hann í þjónustu sína því nykurinn vinnur á við fjölda vinnumanna.

Hugrekki

Á sunnanverðri strönd Suðureyjar er vel sköpuð sendin og grösug vík þar sem bárur falla að landi. Hún er umkringd fjöllum sem ganga klettótt í sjó fram sitt hvorum megin. Dálítið undirlendi er meðfram ströndinni þar sem stendur Fámjin, friðsamur bær og snotur kirkja staðarins í honum miðjum. Fyrir ofan hana liðast mjósleginn foss úr skál sem hvelfist full af vatni inn á milli kletta í hlíðinni. Í guðshúsinu hangir á norðvesturvegg vandlega gerð þjóðargersemi sem komin er til ára sinna. Það er fáni, rauður kross með ljósblárri rönd á hvítum grunni, sem fyrstum var flaggað sem færeyskum þjóðfána.

Rannva

Flest ungmenni í Færeyjum dreymir um að komast á Ólafsvöku sem haldin er með dansi og söng síðsumars í Þórshöfn enda er þá kátt í bænum. Það á einnig við um líflega snót sem heitir Rannva bóndadóttir og býr í Skúfey með foreldrum sínum en lífið þar er heldur fábreytt. Stóra stundin rennur upp og hún fer til hátíðarinnar klædd þjóðbúningi sigri hrósandi, siglandi á bát til höfuðstaðarins með sínu fólki. Unglingurinn vekur athygli fyrir kynþokka sinn og ekki síst karlmannanna á öllum aldri.

Gullið

Girndin í gullið hefur loðað við mannkynið frá upphafi vega. Jafnvel sum dýr og furðuverur liggja og dafna á málminum góða. Þorstinn eftir glóandi gullinu mun líklega aldrei slokkna. Í helli nokkrum á góðum stað í Færeyjum býr blind tröllskessa og dafnar þar vel. Það sem heldur í henni lífi er gullið sem hún sankar að sér á hvern þann hátt sem henni þóknast enda stendur hún utan við lög og reglur samfélagsins. Skessan nærist og hvílist á málminum dýra sem gefur henni líf langt umfram nokkra mennska veru. Þannig líða aldir og enginn þorir að hreyfa við henni né fjársjóðinum eftirsótta

Litla-Sovét

ÚSovétríkin rísa og falla með látum á einni mannsævi. Alræðisvaldið og sérhagsmunagæsla fárra útvalinna gæðinga grafa undan heimsveldinu enda þarf ekkert stríð til þess að fella hið rotnaða kerfi. Í sögunni telst þetta ekki langur líftími en öll eiga heimsveldin það sameiginlegt að þau rísa og hrynja.

Gengið sér til húðar

Stórborgir heimsins hafa sína kosti og galla. Þær soga til sín eins og segull fólk í leit að gullnum tækifærum eða ferðamenn og það hefur á tilfinningunni að þar sé himnaríki á jörðu. Niðurstaða fólks fer eftir því hvernig til tekst og sitt sýnist hverjum að leikslokum. Enda eru viðhorfin eins mörg og þeir sem þangað leita.

Tónskáldið

Tónskáld eru gædd þeirri náttúru að heyra ósamda tónlist í huganum og rita hana niður í nótum á þar til gerð blöð. Þannig að hver sá sem kann að lesa nótnaskriftina heyrir tónlistina, hljóðfæraleikarar geta leikið hana á tónleikum og söngvarar sungið fyrir áheyrendur. Tónlistargyðjan, hin heilaga Sesselja, kallar marga til leiks. Sumir hafa náðargáfuna í sér og aðrir verja mörgum árum til þess að læra tónsmíðar, hina göfugu list. En tiltölulega fáir útvaldir njóta að lokum eldanna sem þeir kveikja.

Dauði skáldsins

Eftir farsælt en stormasamt líf andast skáldið vel á sig komið nokkuð snögglega. Það hefur ritferil sinn óvænt á miðjum aldri og blómstrar eftir það, einmitt þegar margir jafnaldrar þess eru að brenna út. Að loknum lánsömum uppvexti og menntun kemur maðurinn með glæsilega innkomu í þjóðlífið eftir námsdvöl í útlöndum.

Lesa meira

Aðrar bækur