Vinjettur XXI

Í Vinjettum XXI verða samtímaatburðir, æskuminningar, flutningar, veikindi ásamt öðru efni, höfundinum að yrkisefni. Auk þess eru portrett sögur af áhugaverðu samtímafólki sem setur svip sinn á þjóðlífið. Algengt er að ferðalangar aki þjóðveginn í gegnum Húnavatnssýslur og fari á mis við áhugaverða staði og fólk sem þar býr og starfar. Í hluta bókarinnar opnar Ármann Reynisson lesandanum sýn á þessar áhugaverðu sýslur.

Alls staðar nýtur sín vel hinn einstaki stíll höfundarins sem er í senn knappur, ljóðrænn og þó raunsær og vekjandi. Vinjetturnar eru tilvaldar til upplesturs við margvísleg tækifæri.


Kaflar

Kvennafrídagurinn

Umræddur dagur rennur mildur upp með baráttusöngvum í útvarpi, viðtölum við forsprakka baráttunnar og margskonar umfjöllunum í dagblöðum. Stór hluti kvenna landsins tekur þátt í frídeginum en sumar karlrembur reyna að koma í veg fyrir að konur sýni samstöðu en fæstum tekst ætlunarverk sitt. Margar opinberar stofnanir og fyrirtæki loka starfsemi að hluta eða öllu. Heimilisstörfin lenda á herðum eiginmanns og sona eða ekki unnin. Verst þykir mörgum karlpeningnum ástar- og kynlífskuldinn.

Áratugurinn eftir bankahrunið mikla

Nánast á einni nóttu í mars 2020 hrynur spilaborgin vegna kórónuveiru-faraldurs. Flugsamgöngur leggjast nánast af og ferðamenn hætta að koma. Nú á ríkið að bjarga hinum og þessum sem nutu góðærisins. Ríkisstjórnin spreðar peningum úr ríkiskassanum út um allar koppagrundir – oft til þeirra bestmeigandi. Hver borgar brúsann að lokum?

Nýársdagur 2018

Um þessi áramót er logn og milt veður og aldrei fyrr hefur sést önnur eins flugeldasýning og margir skemmta sér konunglega fram á rauðan morgun. Þegar birta tekur af degi um tíuleytið er líkast að Lundúnaþokan fræga sé lögst yfir borgina. Það sést varla milli húsa langt fram eftir nýársdegi og nýárssólin nær ekki að skína í gegnum svifmengunina. Og svifryk er margfalt yfir hættumörkum. Fólk með undirliggjandi sjúkdóma á í erfiðleikum með andardrátt. Borgarbúar vakna upp við ljótan draum.

Fullveldishátíðin

Í stað sameiginlegra hátíðarhalda allra landsmanna og að sætta þjóðina með nýrri stjórnarskrá, sem hún hefur kosið um með auknum meirihluta, á merkum tímamótum, er farið í gömlu hjólförin. Framtíðarsýnin er þokukennd hjá stjórnmálasréttinni.

Víkurkirkjugarður

Á öðrum áratugnum blómstrar ferðamennskan í höfuðborginni. Og hótel-byggingar spretta upp hér og þar. Landssímahúsið gamla kemst í hendur fjárfesta sem fá þá flugu í hausinn að breyta því í hótel með tilheyrandi endurskipulagningu og stærri viðbyggingu. Borgaryfirvöld gefa af sjálfsögðu skotveiðileyfi á frekari röskun kirkjugarðsins í andstöðu við þjóðkirkjuna og fjölda borgarbúa. Blaðagreinar eru skrifaðar Víkurgarðinum til varnar, lögbannsaðgerðir fara af stað, heiðursborgarar taka sig saman og mótmæla við borgarstjóra og borgarráð – það dugar skammt gagnvart peningaöflunum. Virðing borgarskipulags fyrir rótum borgarinnar er takmörkuð. Fátt er lengur heilagt enda má ekki lengur kenna kristinfræði í barnaskólum borgarinnar.

Syngjandi kraftaverk

Eftir fimm ára feril er flogið til Lundúna og metnaðarfullt tónlistarnám hafið í Guildhall School of Music and Drama. Eftir fyrsta námsárið fer Diddú í eyrnaraðgerð sem mistekst. Með einungis fjórðungs heyrn á vinstra eyra og heyrnarlaus á því hægra. En tóneyrað er óskaddað og náminu er haldið áfram í fjögur ár. Diddú sem er bæði metnaðarfull og þrjósk ákveður með ráð og dáð að lifa með sína mikið skertu heyrn svo hún hefti ekki söngför. Í staðinn hefur mótlætið dýpkað persónuna og magnað listaferilinn.

Vísindamaðurinn

Eftir tíu ára útiveru býðst Sigmundi hið vandasama starf, með örstuttum fyrirvara, að setja á stofn efnafræðideild til BS-náms við Háskóla Íslands. Þar er hann kennari ásamt því að stunda fjölbreyttar rannsóknir í rúm þrjátíu ár. Á sex ára tímabili er prófessorinn rektor H.Í. Í því viðamikl starfi tekst Sigmundi með persónutöfrum, hæfileikum í mannlegum samskiptum, skipulagsgáfu og ekki síst víðsýni ásamt metnaði fyrir stofnunina að leiða H.Í. úr embættisháskóla yfir í rannsóknarháskóla. Í leiðinni að virkja öfluga háskólakennara til nánara samstarfs.

Kantorinn í Hallgrímskirkju

Á Skólavörðuholti rís Hallgrímskirkja, vígð 1986, tignarleg á að líta í látleysi sínu og sést víða að á Reykjavíkursvæðinu. Þjóðarhelgidómurinn er helsta kennileiti borgarinnar sem laðar að sér fólk alls staðar frá til andlegrar næringar. Stóran þátt í þeirri þróun á fyrsti kantor kirkjunnar, ásamt konu sinni, en þau hafa byggt þar upp öflugt menningar- og tónlistarlíf sem eftir er tekið. Auk þess frá upphafi starfsferilsins lagt drög að orgelkaupum. Fyrir valinu verður Klais – orgel frá Bonn (vígt 1992) eitt það stærsta og rómaðasta í Evrópu.

Fjölskylduhjálp Íslands

Ljós í myrkrinu eru hjálparstofnanir sem úthluta matvælum, innkaupakortum og fatnaði til bágstaddra. Ein þeirra er Fjölskylduhjálp Íslands sem Ásgerður J. Flosadóttur (1954) setur á fót í byrjun nýrrar aldar og veitir forystu árum saman. Viðskiptakonan lifir fyrir starfið, hefur sterka „samkennd“ – á auðvelt með að setja sig í spor annarra. Stofnunin eru fjármögnuð með sölu í „Ótrúlegubúðinni“, á gjafavöru, framleiðslu á útikertum: „Kærleiksljós til þín,“ útflutningi á notuðum fatnaði, ekki síst dyggum stuðningi fjölda fyrirtækja og velunnara og lítillega frá því opinbera. Framtakið hefur létt byrðar og glatt hjörtu ótal margra sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

Skapandi ljósmyndari

Á besta aldri tekur Ásgeir að finna fyrir dofa í höndum sem þróast í margskonar langvarandi verki hér og þar um líkamann. Það uppgötvast að hann er haldinn CRPS-sjúkdómi. Engin lyf geta haldið þjáningunni fullkomlega niðri. Sjúklingurinn er síþreyttur og orkulítill og sofnar í tíma og ótíma þegar hann getur ekki meir. Inn á milli nær Ásgeir að vinna áhugaverð ljósmyndaverkefni.

Poppstjarna Íslands

Ein fjölmennasta hátíð sumarsins er „Gleðiganga“ hinsegin fólks um miðbæ Reykjavíkur. Í áraraðir toppar hersýninguna glæsivagn Páls Óskars og vekur feikna athygli. Popparinn frægi stendur á vagni með upphækkaðri sviðmynd, spengilegur að sjá og í litríkum, níðþröngum glimmerfatnaði og hreyfir sig á eggjandi hátt. Á sama tíma sveiflast hendurnar, líkast öldum hafsins, í takt við dillandi tónlistina. Umhverfis listamanninn sitja og standa dansarar klæddir í stíl og hreyfa sig mjúklega. Að ævintýrasýningunni lokinni treður söngvarinn upp í miðbænum við mikil fagnaðarlæti aðdáenda sinna. Á þennan máta ásamt lagatextum sínum og viðtölum vekur Páll Óskar athygli á réttindabaráttu og málefnum samkynhneigðra.

Heggstaðanes

Við auga blasir hálfhrunið tvílyft timburhús en skammt frá er hrörlegt útihús með áfastri hlöðu og nokkru fjær ílla hirt steinsteypt íbúðarhús sem málningin hefur skolast af með tímanum. Þegar bankað er upp á kemur enginn til dyra eftir nokkra bið. Síðan er gengið um hlaðið nokkurn spöl frá húsinu allt í einu heyrist kallað: „Hver er þar á ferð?“ Gestkomandi snýr sér við og sér Davíð bónda, álútan í vinnugalla, með fötu í hendi, annar einsetubræðranna á bænum.

Jólaleiði

Maðurinn er með gálgahúmor og háð gagnvart jólahaldinu og boðskapnum því tengdu. Hann blótar og bölvar við ólíklegustu aðstæður. Leikur sér að því að skemma jólaskreytingar og brjóta jólaperur. Annað slagið sullar Jón í víni og verður með óþolandi röfl út af þessu og hinu. Fólkið umhverfis Jón skilur ekki hvers vegna þessi mæti og prúði maður umhverfist nánast í annan persónuleika einmitt á aðventunni. Lengi vel skilur Jón það ekki sjálfur enda á hann í erfiðleikum með að opna sig og tjá tilfinningar sínar. Margir ráðleggja Jóni að ræða vandamálið við sálfræðing eða prest en hann þverskallast við því.

Fúskarinn

Í verklok þegar kunninginn ætlar að greiða Láka umsamið tímakaup – telur ekki með kaffihléin. Það fýkur í minn mann sem umturnast og hellir sér ónotalega yfir verkkaupann og hrópar í æsingi: „Ég bað ekkert um ómerkilegar veitingar og þú truflaðir mig frá vinnu með kjaftæði.“ Kunningjanum er brugðið og spyr Láka: „Ætlar þú að taka við seðlabúntinu eða ekki?“

Blind móðurást

Í hárri elli andast Silla sem horfist aldrei í augu við raunveruleikann – móðurástin er blind. Enginn fær að vera við bálför móðurinnar annar en Rúnar sjálfur. Duftkerið gleymist í geymslu Kirkjugarða Reykjavíkur.

Stórþvottur

Það verður snyrtipinnanum leikur einn að þvo, strauja og brjóta þvottinn síðan saman eins og strjúka honum um leið. Á sama tíma rifjast upp fyrir Viktori, með bros á vör, ánægjuleg æskuminning þegar hann fylgdist með móður sinni þvo þvotta í þvottahúsinu á æskuheimilinu. Það kom fyrir að hjálp var þörf, aðallega strekkja þvottinn og brjóta fallega saman.

Að missa fótanna

Það kemur því Erni í opna skjöldu, eftir áratuga þjálfun, að missa fótanna þegar hann stígur upp úr rúminu og í vinstri fótinn morgun einn. Það reynist vonlaust að ganga og þess í stað druslast maðurinn áfram, með þrautum, um heimili sitt. Með herkjum og sárauka getur Örn burstað tennurnar og rakað sig, farið í sturtu og matreitt létta máltíð.

Aðfangadagur jóla 1960

Aftansöngur hefst á slaginu klukkan átján eftir hringingu kirkjuklukknanna – jólin ganga í garð. Það er líkast því að vera kominn í annan heim. Hátíðarbragur ríkir yfir jólamessunni, tveir prestar þjóna, og tónlistin, orgelleikur ásamt kórsöng, er tilkomumikill. Undir eftirspilinu óska kirkjugestir hverjum öðrum gleðilegra jóla.

 

 

 

 

Lesa meira

Aðrar bækur