Vinjettur II

Bókin Vinjettur II hrífur lesendur sína með í ævintýranlegt ferðalag, hún er bæði næm og með viðkvæmni, fallegum augnablikum, innsæi í mannlegt eðli og á tíðum opinská og djörf. Ármann Reynisson fer á kostum, kemur víða við innanlands og utan og opnar sýn inn í heima sem fáir þekkja. Sögurnar leiða lesandann áfram hver af annari, þær hljóma saman og enduróma í reynsluheimi hans. Oft draga sem fæst orð upp skýrustu myndina. Örstutt frásögn getur meitlað höfuðatriðið. Vinjetturnar eru sem stutt leikrit – myndrænn textinn hentar vel til upplestrar.


Kaflar

Túlípanaveislan

Hátíðardagurinn rennur upp votviðrasamur, eins og oftast nær, landar mæta síðdegis, þiggja svartadauða og hákarl, um kvöldið koma hinir útvöldu spariklæddir til kvöldverðar. Setið er við veisluborð listilega skreytt marglitum túlipönum. Sendiherrafrúin sem skartar skautbúningi heldur hressilega ræðu sem lyftir andanum í hæðir. Hún ræðir m.a. um næringargildi túlipana sem er þjóðarréttur og á stóran þátt í lífsgæðum heimalandsins. Hún lyftir síðan glasi, skálar fyrir minni ættjarðar sinnar og býður gestum að snæða blómin fyrir framan þá, og taka þeir til matar með bestu lyst.

Caronía

Sundin blá skarta sínu fegursta, golan hefur tekið sér frí, sólin leikur sér á heiðskírum himninum og það sést vel til fjalla í tæru loftinu. Til þessa heims siglir tígulegt skemmtiferðaskip í árlegri komu sinni til Reykjavíkur á tímum kalda stríðsins þegar innflutningur til landsins er háður höftum og bönnum. Ísland er afskekkt og fáir ferðamenn leggja leið sína til hins norðlæga lands sem er lítt þekkt í veröldinni og langt í að það komist í tísku. Í fábreytileikanum er sumarheimsóknin kærkomin, ytri höfnin breytir um svip og fær á sig alþjóðlegt yfirbragð.

Ást og fótbolti

Þegar í búningsklefana er komið fara sveittir leikmennirnir í sturtu og brýst þá út jafnteflisgleði hjá liðunum. Mótherjar fallast í faðma og kyssast innilega meðan vatnið sprautast linnulaust yfir þá. Kropparnir eru rafmagnaðir og neglur þeirra stingast djúpt í mjúk bökin á félögunum og klóraðar eru sebradýrsrákir í þau meðan útrásin stendur yfir.

Hetjudáð

Svörtuhamrar hvelfdust voldugir og ógnvekjandi mót skipsbrotsmönnunum sem komu sér fyrir á brúarþakinu og skorðuðu sig fasta við mastrið. Vonin um björgun hélt lengi í þeim lífi og þreki. Þeir biðu og biðu tímunum saman og báturinn brotnaði stöðugt undan þeim. Án afláts gengu öldurnar yfir félagana er misstu smám saman tökin og hentust hver af öðrum í vota gröf. Einn skipverjinn hélt í sér lífsvoninni með þrjóskunni einni saman meðan hugurinn dvaldi í hlýjunni hjá konu og börnum sem biðu í örvæntingu heima.

Ást og hljóðnemi

Tónleikarnir hefjast, popphljómar magnast, söngvarinn hefur upp raust sína og áheyrendur hljóða upp yfir sig. Á meðan taktfastur trommuleikurinn dunar og tónar slegnir á rafgítara heldur stjarnan þétt í standinn og spengilegur líkami hans hreyfist sveiflukennt. Smám saman æsist leikurinn, háleitt andlitið skáskælist, hárið rís, eyrun bifast, augun skjóta blossum og langt nefið þenst ótt og títt. Í miðju lagi er neminn eplaður og rekinn upp að breiðum og safaríkum vörunum og goðið liðast vímukennt fram á sviðið í níðþröngum bol og buxum er falla þétt að gamla grána.

Jól á Íslandsmiðum

Haldið er út á miðin skömmu fyrir hátíðar til þess að afla fiskjar fyrir þjóðarbúið. Innanborðs eru harðneskulegir sjómenn, svipþungir og markaðir í andliti af áratuga striti, ásamt unglingi í sinni fyrstu ferð. Himinninn er úfinn og norðangarri næðir um, þungt er í sjóinn og dagsbirtan er lítil í drunganum, lífið á togaranum gengur sinn vanagang er hverdagslegt sem endranær.

Afrekshópurinn í megrun

Um jól og áramót missa margir tökin á sér, háma í sig fjölbreyttan hátíðarmat, konfekt og smákökur með tilheyrandi gos- og víndrykkju. Þetta háttalag verður til þess að menn nenna ekki að hreyfa sig, leggjast í leti og bæta á sig aukakílóum, göngulag verður stirt og nýársheitin felast í því að koma sér aftur í form.

Afmælisveislan

Hápunktur á starfsferli hennar var að halda afmælisveislu fyrir frægan poppara sem var náinn vinur hennar. Klæddist sendiherrann þröngum glimmerkjól og líktist helst Marilyn Monroe í öllu hátterni og fasi. Hún fékk lof fyrir snjalla ræðu, aðdáun fyrir framkomu og himneskt ilmvatnið, en fæturnir þóttu skyggja á fullkomleikann.

Ást og arineldur

Dagurinn líður og andlitin taka á sig kaffibrúnan lit, augun geisla af hamingju og hugurinn tendrast upp. Smám saman finna þau ríka þörf fyrir nánara samneyti sem að lokum knýr þau inn í bjálkakofa hitaðan upp við arineld. Þau stíga nakin og spengileg úr skóm og göllum, vefjast saman og líða niður á bjarndýrsskinn.

Geðfötlun

Nú er ég Björk og geng um götur borgarinnar í svanslíki og verpi eggjum. Vegfarendur stara á mig af hrifningu og blaðaljósmyndarar elta mig á röndum. Ég er miðpunktur alls og nær blindast af blossum myndavélanna. Hljómdiskar mínir seljast í miljónum eintaka út um víða veröld og ég nærist á því að vera heimsfræg poppstjarna. Ég miðla skilaboðum náttúrunnar um frið í gegnum hljómlist mína til þess að gleðja umheiminn því böl hans ásækir mig og kærleikurinn er honum nauðsynlegur.

Bankahrunið

Tímarnir breyttust og févana lífeyrissjóðir og eignalítill almenningur krafðist verðtryggingar og vaxta á sparifé sitt. Þetta var meira en gamla kerfið þoldi og sprakk bankinn í loft upp um síðir. Til þess að bjarga málum voru milljónir á milljónir ofan teknar úr ríkiskassanum til þess að borga kröfuhöfum. Þess vegna tapaði enginn á gjaldþrotinu, nema hver einn og einasti skattgreiðandi landsins.

Dauðinn og tætarinn

Svo brá við að skattstjóri ríkisins boðaði komu sína til höfuðstöðva viðskiptajöfursins og ætlaði að kynna sér bókhald fyrirtækja hans ofan í kjölinn. Því var ákveðið að hvítþvo allan reksturinn. Fékk eigandinn til liðs við sig endurskoðendur sína og saman hömuðust þeir kófsveittir og þreyttir í möppum og skjölum, flokkandi hvað mætti sýna og hverju skyldi koma í lóg fyrir heimsóknina.

Nauðlending

Farþegar voru glaðbeittir þegar þeir stigu um borð í þotuna og komu sér vel fyrir í mjúkum sætum með aðstoð áhafnarinnar. Venjubundin stemmning var um borð meðan neyðarráðstafanir voru kynntar vandlega. Allt var klárt fyrir flugtak og fólk andaði djúpt að sér meðan vélin brunaði eftir flugbrautinni og lyftist hægt og örugglega á loft í veðurblíðunni. Notið var útsýnisins yfir Zurich, þá lygn vötn og bleika akra, síðan blöstu við Alparnir bláhvítir og tindóttir.

Tvíburarnir

Notið er hins ljúfa lífs við Glugga heimsins á efstu hæð skýjum ofar. Vandamál dagsins gleymast meðan munaðurinn er borinn á borð. Horft út yfir taflborð New York borgar, þar sem drottningin er Frelsisstytta, kóngurinn Heimsveldisbygging og peðin skógur samansettur úr járni, stáli og steypu og allir eru þátttakendur. Veraldarskákin er tefld af misgóðum leikmönnum og skákklukkan tifar án afláts. Innst inni dreymir okkur um betri heim og framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Lesa meira

Aðrar bækur