Vinjettur IX

Í Vinjettun IX eru 43 sögur vítt og breitt frá Indlandi. Ármann Reynisson opnar lesandanum sýn inn í framandi og litríkan heim með næmni sinni og víkkar þannig til muna sjóndeildarhringinn í vinjettu ritsafni sínu. Indlands vinjetturnar eru lifandi lýsingar um lífið og tilveruna og höfundur kafar að rótum móðurhjarta landsins. Frásagnirnar eru tilvaldar til íhugunar og myndrænn textinn hentar vel til upplesturs við margvísleg tækifæri.


Kaflar

Aðdragandi Indlandsferðar

Friðsældin í Burma er snögglega rofin og ógnvekjandi drunur dynja í eyrum óttasleginna borgaranna og yfirgnæfa öll hljóð. Gráir japanskir stríðsfuglar sjást sveima yfir byggðum og varpa frá sér sprengjuregni. Ófögnuðurinn tætir í sundur landið og leggur að velli konur, börn og karlmenn eins og hendi væri veifað. Síðari heimsstyrjöldin er í algleymingi og enginn veit hvað verða vill.

Múr Vesturlanda rofinn

Hvernig sem á því stendur þá er líkast því að flestir Vesturlandabúar loki sig af frá öðrum heimshlutum þrátt fyrir alla menntun. Sjónarhorn margra nær ekki út fyrir múr Vesturlanda – jafnvel ekki sinnar eigin þjóðar – enda hafa sumir á tilfinningunni að rætur og menning spretti upp í heimahögum.

Sjómaðurinn

Síðdegis á jóladag liggja leiðir tveggja manna saman á Mukkom ströndinni. Þeir heilsast án handabands og virðast jafn undrandi að sjá hvorn annan. Þeir hefja samræður á ólíkum tungum og skrautlegu látbragði. Með gestkomanda er fylgdarmaður sem stendur til hliðar og túlkar samræður mannanna. Annar þeirra er glaðlegur heimamaður, ungur að árum, á leið til fiskjar.

Helgiganga

Í árþúsundir hefur verið farin Pooram helgiganga að sið hindúa. Hún er haldin enn þann dag í dag við hljóðfæraslátt og tilheyrandi hátíðleik. Lagt er af stað frá einu musteri og gengið til annars og mjakast gangan áfram hægt og rólega þar sem staðnæmst er annað slagið með stuttu millibili með tilheyrandi siðvenjum. Ævaforn brass tónlist er leikin á meðan.

Stjörnuspekingurinn

Frá örófi alda hafa himintunglin laðað að sér augu jarðarbúa bæði sakir forvitnis og til siglinga. Á þriðja degi samkvæmt sköpunarsögunni setur Guð tvö stóru ljósin og stjörnurnar á festingu himinsins. Í himingeimnum fer allt eftir kúnstarinnar reglum þannig að hægt er að reikna út gang tunglanna bæði fram og aftur í tímann.

Umkomuleysi

Til hvaða lands sem komið er bregður fyrir umkomulausu fólki og í sumum löndum er það sjáanlegra og fleira en í öðrum. Það er kaldhæðnislegt að ríku þjóðunum takist ekki að uppræta neyð annarra þrátt fyrir að þær hinar sömu sperri sig með allrahanda yfirlýsingum með fagurgalann í farteskinu. Hvað þá að þær efnaminni deili lífsgæðum jafnar milli meðbræðra sinna þannig að öll nýfædd börn fái sömu tækifæri til þess að spreyta sig í skóla lífsins

Lestarferðin

Eftir sléttum Tamil Nadu brunar járnbrautarlest áfram hratt og greitt og fyrir þann sem fylgist með úr fjarska virðist vagnröðin á teinunum aldrei ætla að taka enda. Hún er komin til ára sinna eins og sjá má á beyglum á skrokki hennar og búnaði öllum að innanverðu. En þrifalegt er um að litast þegar gengið er til sætis áður en ferðin hefst.

Endurholdgun

Að líkindum verður gátan um það hvað gerist eftir dauðann aldrei leyst enda mannkyninu hollt að halda forvitninni vakandi. Í sumum trúarbrögðum er álitið að fólk endurfæðist eftir dauðann í einni eða annarri mynd. Og það kemur fyrir að fólk muni sitt fyrra líf og geti lýst því nákvæmlega. Þetta á við um konu er lést úr krabbameini aldarfjórðungs gömul eftir langvarandi veikindi.

Stjörnuspekingurinn

Frá örófi alda hafa himintunglin laðað að sér augu jarðarbúa bæði sakir forvitnis og til siglinga. Á þriðja degi samkvæmt sköpunarsögunni setur Guð tvö stóru ljósin og stjörnurnar á festingu himinsins. Í himingeimnum fer allt eftir kúnstarinnar reglum þannig að hægt er að reikna út gang tunglanna bæði fram og aftur í tímann.

Varanasi

Til hinnar helgu borgar, sem helguð er Shiva, koma fjölmargir pílagrímar alls staðar frá landinu í þeim tilgangi að taka síðasta andvarpið. Og láta sína nánustu brenna jarðneskar leifar sínar á bökkkum Ganges og dreifa að lokum öskunni út á fljótið. Það er trú hindúa að þannig öðlist sálin eilífan frið og hætti að endurfæðast í jarðneskum líkama.

Taj Mahl

Við fyrstu sýn úr fjarska líkist Taj Mahal óútsprungnum túlípana ljósum að lit sem teygir sig reisulegur í átt til sólar. Eftir því sem nær dregur opnast blómið hægt og rólega og fjórar súlur gnæfa síðan við himin, hver til sinnar áttar. Og í miðið rís hátt næpulöguð hvelfing, kóróna Indlands, á traustum grunni mannvirkisins, með fjóra minni sér til hverrar hliðar. Sjónarspilið fangar hugann og Taj Mahal minnir á nakta og lostafulla mær er bíður róleg eftir fyrsta ástarfundi með ástmanni sínum.

Punjab

Þegar Alexander mikli kemur með herlið sitt alla leið frá Makedóníu að Indusfljóti horfir hann af ásælni yfir til Punjab ? héraðs, fimm fljóta landsins. Farartálminn mikli, þreyta í herliðinu og nokkru síðar dauði hetjunnar, gera það að verkum að ekkert verður úr frekari landvinningum.

Brúðkaup

Oftast nær er töluverður aðdragandi að indversku brúðkaupi, því sá siður tíðkast víða að foreldrar brúðhjónanna hafa hönd í bagga um makaval. Mikið er við haft á hinum mikla degi enda er stórfjölskyldunni og vinahópnum boðið til hátíðahaldanna sem geta verið fjölmenn í meira lagi. Og ekkert er til sparað enda svigna borðin undan gómsætum krásum því veislan getur staðið yfir daglangt og jafnvel lengur. Því margt er haft til skemmtunar auk ánægjunnar að hittast og samgleðjast brúðhjónunum.

Lesa meira

Aðrar bækur