Vinjettur XIII

Vinjettur XIII hafa að geyma 43 fjölbreyttar sögur úr ólíkum áttum. Í fjölskyldusögum Ármanns Reynissonar frá fyrri hluta 20. aldar grípur síðari heimstyrjöldin, með harmrænum hætti, inn í líf ættmennanna. Þá skoðar höfundurinn ofan í kjölinn annars vegar skondin tilvik og óvænta atburði í mannlífinu, hins vegar ankannalega framkomu í daglega lífinu. Nokkrar sögur, sem einnig eru á þýsku, fjalla um listamanninn og náttúrubarnið Peter Lang frá Bæjaralandi sem siglir nútíma víkingaskipi til Íslands, dvelst á Snæfellsnesi í eitt ár, til að fanga náttúrustemmingar sögueyjunnar á striga fyrir heimsbyggðina.


Kaflar

Björnssynir

Síðari heimsstyrjöldin geisar og Bandaríkjamenn dragast inn í hildarleikinn eftir árásina á Pearl Harbour. Ísland sem er hertekið af Bretum 1939 kemst í þjóðbraut vegna herflutninga milli heimsálfanna tveggja. Árið 1941 tekur bandaríski herinn landið yfir og lendir í erfiðlekum í samskiptum við landsmenn. Þar af leiðandi eru Vestur – Íslendingarnir Hjálmar hagfræðingur og Valdimar fjölmiðlafræðingur Björnssynir blaðakóngs í Minneapolis, sem tala bæði ensku og íslensku reiprennandi, kallaðir í Hvíta húsið í Washington á fund Roosvelts forseta og hermálayfirvalda til skrafs og ráðagerða. Leikar fara þannig að bræðurnir eru sendir með freygátu til Íslands. Herskipið leggst að Miðbakka við Tryggvagötu á þungbúnum desemberdegi og tígulmenni stíga á land í dökkum einkennisbúningum prýddum gylltum hnöppum með kaskeiti á höfði.

Halldór námsmaður

Eftir rúma mánaðarsiglingu frá New York í skipalest snemma vetrar lýðveldisárið 1944 á farþegaskipið sem statt er út af Garðskaga eftir um stundar stím til Reykjavíkur. Með í för er Halldór sem stundað hefur nám í blaðamennsku og dvalist hjá frændfólki sínu í Minneapolis. Fjölskylda hans býður heima með tilhlökkun og ekki síst móðirin sem liggur banaleguna. Þá, já einmitt þá, þegar halla tekur á síðari heimsstyrjöldina skýtur þýskur kafbátur Goðafoss niður á sama tíma og skipverjar eru að bjarga skipbrotsmönnum. Síðast sést til Halldórs rétta öðrum farþega björgunarvestið sitt. Hann hlýtur vota gröf.

Guðrún Jerúsalemsfari

Eftir Via Dolorosa gengur með reisn roskin kona í íslenskum þjóðbúningi á öðru ári sjöunda áratugs tuttugustu aldar. Aldrei fyrr í mankynssögunni hefur nokkur kvenmaður skartað upphlut á Golgata. Íslendingurinn hefur alla ævi þráð að heimsækja hina helgu borg og fer með fyrstu hópferð sem þangað er farin fá heimalandi sínu. Og Guðrún kaupkona telur þennan viðburð hátind lífs síns.

Páll kvænist Álfkonu

Á besta aldri kvænist Páll álfkonu sem verður lífsförunautur hans og þau eignast tvo syni. Fjölskyldan fylgist að dag og nótt og kúrir í sama rúminu, annar drengurinn til fóta hjá hjónunum og hinn upp við gafl. Í Öxarfirði þar sem vinnumaðurinn starfar lengst af eru tilkomumiklar álfabyggðir bæði í Snartastaðanúpi og í klettinum við Brekkuhól. Þangað fer fjölskyldan í heimsókn, á tyllidögum, til ættingja og vina og það eru ætíð fagnaðarfundir. Páll hefur eitt sinn á orði á gamals aldri: ,,Ég er aldrei einn.´´

Fermingargjöfin

Líf geðsjúklingsins er ein þrautarganga með allrahanda lyfjatökum og sjúkrahúsvist áratugum saman. Hann býr engu að síður vel og rekur fyrirtæki föður síns, eftir hans dag, þegar bráir af honum. Geðfatlaði maðurinn er líkastur fanga í eigin líkama og skynjar vel fötlunina sem hamlar honum á margan hátt að lifa eðlilegu lífi. Þegar öll sund virðast lokuð er trúin kjölfestan í lífi mannsins til þess að yfirstíga þrautagönguna. Og Biblían sem honum var gefin í fermingargjöf forðum verður honum besta veganestið.

Eftirsjá

Það er áfall fyrir ekkjuna að heyra andlátsfréttina og á hún lengst af í erfiðleikum með að sætta sig við dauða eiginmanns síns og glíma við sorgina. Hún fær grátköst þegar síst skyldi. Flestir sem til þekkja átta sig ekki á því hvað veldur þessu háttalagi hennar. Kominn á grafarbakkann segir gamla ekkjan: ,,Ég hef tregað það alla tíð að við hjónin skyldum ekki kveðjast þennan örlagaríka dag.´´

Klerkurinn kankvísi

Norður við Dumbshaf gengur tilveran sinn vanagang þrátt fyrir að síðari heimsstyrjöldin sé í algleymingi úti í hinum stóra heimi og óljóst hver muni bera sigur af hólmi. Sveitafólkið fylgist vel með gangi mála í gegnum útvarpið og reynir að átta sig á atburðarásinni. Fljótlega eftir sauðburð rýja bændur kindur sínar og einnig annarra sem slæðast með eftir smölun. Síðan er það starf ungra pilta að skila ull aðkomukinda til réttra eigenda eða sækja ull feðra sinna. Þannig fara þeir ríðandi bæ af bæ og segja fréttir af búskapnum í leiðinni og fá oftast einnig fróðleik hjá þeim ábúendum sem þeir hitta.

Spegilmynd framtíðarinnar

Það kemur fyrir að sumir atburðir í æsku speglist síðar meir í lífi viðkomandi án þess að tekið er eftir því. Fólk er misnæmt fyrir duldum tengingum og sér sjaldnast ekki samhengið fyrr en hringnum er lokað. Oftast nær eru það ættingjar sem skynja speglunina þegar þeir gera upp lífshlaup sinna nánustu. Og þetta á við um stúlku nokkra sem er lífleg og bráðþroska eftir aldri. Hún fer sínar leiðir svo eftir er tekið og lendir í ýmsu sem um er talað.

Uppákoma í jarðarför

Hallgrímskirkjan er þéttsetin af menningarvitum sem fylgja síðasta spölinn skáldjörfi nokkrum. Maðurinn gaf upp öndina í gufubaði og jarðnesku leifar hans dvöldust þar fyrstu nóttina eftir andlátið. Lítið sést í hvíta kistuna fyrir blómahafi og kór kirkjunnar er að drukkna í viðamiklum krönsum og angan blómanna fyllir nasir kirkjugesta líkast því að hellt sé yfir þá úr fullu ilmvatnsglasi. Sólargeislar berast inn um ljósglerjaða glugga kirkjunnar frá hægri hlið – andrúmsloftið er hástemmt.

Blint stefnumót

Hinir ókunnu náungar hittast og ræða málin. Það kemur í ljós að ungi maðurinn hefur lengi haft löngun til viðmælanda síns sem hann þekkir í sjón gegnum fjölmiðla. Að hans mati ekki um auðugan garð að gresja í borginni, af áhugaverðum rosknum mönnum sem til væru í tuskið. Sá eldri gerir grein fyrir afstöðu sinni þar sem tvöfalt líferni kemur ekki til greina. Að endingu biður hann íþróttamanninn vel að lifa og telur sig endanlega lausan allra mála.

Lesa meira

Aðrar bækur