Vinjettur V

Áfram heldur Ármann Reynisson að kynna lífið eins og það kemur fyrir sjónir dagsdaglega í víðasta skilningi. Nú sem áður er fjölbreytnin í fyrirrúmi og áhersla lögð á nútíma dæmisögur í anda biblíunnar auk óvæntra atburða sem gerast í kirkjum landsins. Vinjettur V er litrík bók, myndrænn textinn kemur fólki jafnt á óvart og í fyrri bókum höfundar.


Kaflar

Komið til mín…

Síðla kvölds kemur jafnan tötralega klæddur maður lotinn í herðum að guðshúsinu með poka á bakinu. Hann haltrar upp kirkjutröppurnar, leggst þvert fyrir dyrnar og hjúfrar sig þétt upp að þeim. Andlitið grúfir hann út í annað hornið og leggur báðar hendur undir höfuðið. Þar liggur útigangsmaðurinn eins og barn í móðurfaðmi í hvaða veðri sem er – þarna er hans næturstaður. Enginn þekkir hugrenningar hans og drauma né ástæðuna fyrir örlögum hans eða staðarvalinu. Árla morguns skrönglast betlarinn á fætur og hverfur út í mannhafið.

Barnauppreisnin

Með tímanum magnast upp óánægja og slakur námsárangur hjá börnunum í fríríkinu. Þau verða ódæl heima og heiman og byrja á því að stelast í draumaskólann. Ástandið verður um síðir óviðráðanlegt, skólastarfið fer í uppnám, foreldrar þeirra gefast upp á friðlausum heimilunum. Haldið er íbúaþing um vandamálið þar sem krafist er samruna tafarlaust við nágrannana og úrtölumennirnir úthrópaðir. Eftir fundinn hverfur fríríkið fljótlega inn í heildina.

Torfæruakstur

Gamall torfærujaxl bauð unnustu sinni sem engan áhuga hefur á keppnisíþróttinni í bíltúr. Hún klofar upp í jeppa með risastórum dekkjum og kemur sér fyrir í sætinu við hliðina á bílstjóranum og spennir bílbeltið. Ekið er út á sandbreiður meðfram fljótsbökkum og skötuhjúin njóta þess að fylgjast með æðandi straumnum í kvöldhúminu. Stúlkan er fámál og hlustar á frægðarsögur bílstjórans sem talar án afláts enda er af nógu að taka. Þannig líður góður tími en loks fer henni að leiðast rausið enda komin með pirring af öllu saman. Ökumaðurinn skynjar líðan kærustu sinnar og segir án umhugsunar: „Nú hressi ég upp á þig, elskan.“

Mývatn

Snúa þarf á yfirganginn og koma því í lag sem frá náttúrunni hefur verið tekið fyrir þá sem erfa munu landið – ef það er þá nokkurn tíma hægt? Einhvers staðar í paradísinni leynist heimasmíðuð fallbyssa tilbúin til varnar.

Innbrotstilraun

Sigri hrósandi húsbóndanum finnst sem hann hafi öðlast margfaldan mátt er varir um sinn. Fagnandi eiginkonan upptendrast af hetjunni sinni sem lítur auk þess út fyrir að hafa öðlast stóraukinn kynþokka. Þau eru óseðjandi fram í morgunsárið.

Káta ekkjan

Kona nokkur missir mann sinn eftir farsælt en litlaust hjónaband. Hún hefur lengi verið bundin heima við matargerð og gestamóttökur meðan eiginmaðurinn vasast í stjórnmálum og braski því tilheyrandi. Börnin valta yfir hana eitt af öðru með frekju og endalausum barnapössunum. Lítill sem enginn tími gefst til skemmtana hvað þá dansleikja sem konan þráir alla tíð að komast á.

Villta ekkjan

Villta ekkjan, eins og hún er kölluð, vekur á endanum heimsathygli eins og hún hefur lengi sóst eftir. Hún er bitin á háls af eftirlætisrakkanum og henni blæðir út í rúminu sínu.

Innbrotstilraun

Sigri hrósandi húsbóndanum finnst sem hann hafi öðlast margfaldan mátt er varir um sinn. Fagnandi eiginkonan upptendrast af hetjunni sinni sem lítur auk þess út fyrir að hafa öðlast stóraukinn kynþokka. Þau eru óseðjandi fram í morgunsárið.

Stúdentaveislan

Eineggja tvíburar geta verið svo líkir að erfitt er fyrir ókunnuga að greina þá sundur, jafnvel nánustu vini eða eiginkonur. Þannig er því farið með bræður sem ákveða að ganga menntaveginn til þess að uppfylla metnaðarfullar óskir foreldra sinna. Þeir standa sig vel í virðulegum menntaskóla, fá góðar einkunnir og taka virkan þátt í félagslífinu. Þegar það hentar villa þeir á sér heimildir án þess að nokkurn gruni og þykir það sérstaklega hentugt í kvennamálum. Í þeim fögum sem próf eru munnleg ákveða þeir að skipta með sér verkum og mæta hvor fyrir annan til þess að fá hæstu einkunnir. Þetta gengur eftir öll árin og eru þeir dáðir fyrir dugnað sinn og njóta vinsælda meðal kennara og nemenda.

Æðiskast

Nú veikist forstjórinn og þarf að hverfa frá störfum en þvingar soninn um leið til að setjast í stólinn sinn. Á fyrsta degi með ábyrgðina einn á herðunum er eins og dökkt ský hellist yfir huga hans og situr þar sem fastast. Örvæntingarfullur maðurinn þrífur í örvinglan sinni haglabyssur þeirra feðga, hleður þær og æðir um marmaralögð gólfin án þess að vita hvað gera skal. Á veggjunum eru vel pússaðar glerhillur og á þeim stillt upp sýnishornum af fallegum innflutningnum er gljáir í öllum regnbogans litum. Það rennur allt út í eitt, maðurinn er viti sínu fjær og byrjar að skjóta og skjóta án afláts úr báðum byssunum í allar áttir úr einum sýningarsal í annan. Varningurinn splundrast í milljón glerbrot með tilheyrandi hvellum og brothljóði og flæðir um gólfin líkast bergvatnsá. Þegar skotin eru uppurin leggst maðurinn ofan á glerhrúguna og syndir í tæru vatninu út í frelsið. Hann gengur í lið með öskuköllum borgarinnar.

Lesa meira

Aðrar bækur