Vinjettur X
Fyrsti áratugur 21. aldar er höfindi hugleikinn í Vinjettum X. Þar er að finna tuttugu og fjórar sögur um græðgisvæðinguna, útrásina, bankahrunið, kreppuna og afleiðingar hamfara af mannavöldum á einstaklinga og heila þjóð. Fjölskyldusögur Ármanns Reynissonar eru tíu talsins og segja frá lífsbaráttu Íslendinga á tímabilinu frá 1850 til 2000. Þeirra kynslóða sem með sleitulausri vinnu lögðu grunn að og byggðu upp sjálfstætt velferðasamfélag – með trúna á landið að leiðarljósi. Auk þess eru níu sögur með öðru fjölbreyttu efni. Vinjettur hafa náð fótfestu bæði innanlands og utan enda þykja þær nýstárlegur ritstíll. Í fáum orðum opnaþær lesandanum sýn inn í stóra veröld – þær eru ávallt innan við blaðsíðu að lengd. Vinjetturnar er tilvalið lesefni til umhugsunar og upplesturs við hin ýmsu tækifæri.
Kaflar
Hjónin á Syðra-Lóni
Hjónunum á Syðra-Lóni farnast vel hátt í hálfa öld. Þau eignast tólf vel gerð börn og taka auk þess sjö fósturbörn. Öll komast þau til manns og verða góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar, stofna hvert sína fjölskyldu. Ungviðið nýtur kærleika þar sem manngæska er höfð í fyrirrúmi. Yfir bænum ríkir heiðríkja er leiðir þangað margan mæddan samferðarmanninn á erfiðum tímum fátæktar og matarskorts. Jafnvel konu í barnsnauð, þurfalings að taka síðustu andvörpin eða annarra að þiggja hollráð húsbænda. Fjölskrúðugur hópur fólks nýtur annálaðrar gestrisni heimilisins og þar á meðal æðstu ráðamenn landsins. Aldrei er ætlast til nokkurs fyrir greiðasemina.
Græðgisvæðingin
Nú tekur sýndarmennska að skipta höfuðmáli. Enginn er maður með mönnum nema eiga villu, uppmubleraða með leðurhúsgögnum og allrahanda græjum. Þá er voldugur jeppi ómissandi stöðutákn. Sumarbústaður með vínkjallara og heitum potti nauðsynlegur til afslöppunar. Munaðurinn er síðan toppaður með listisnekkju og einkaþotu auk íbúðar í heimsborg eða sólarlöndum. Málverk eftirsóttra listamanna eru keypt á uppsprengdu verði og stundum áður en þau eru máluð. Ekki má gleyma voldugum úrum er vega þungt á úlnliðinum. Svart er lofsungið sem táknlitur velgengninnar hvort heldur í jólaskreytingu eða brúðarvendi. Í auglýsingu banka nokkurs kemst blót í tísku. Amerískir siðir eru teknir upp í ríkum mæli svo sem ofurkvöldverðir fyrir þá sem vilja spreða peningunum frammi fyrir alþjóð. Haldnar eru foropnanir á listsýningar fyrir glansliðið sem hefur takmarkaðan áhuga á listum hvað þá að hitta listunnendur. Og fyrrverandi forseti lýðveldisins toppar hégómann – madam selur aðgang að merkisafmæli sínu.
Gullkálfurinn
Á ofanverðri tuttugustu og fyrstu öld ryður sér til rúms óbeisluð frjálshyggja þar sem flest er leyfilegt í eigin þágu án tillits til hagsmuna heildarinnar. Þá eru ríkisfyrirtæki einkavædd á útsölu í hendur einkavina stjórnmálaafla. Markaðurinn ræður ferðinni að þeirra mati. Gömlu gildunum sem þjóðin hefur lifað eftir í aldir er vikið til hliðar og trúarlegt tómlæti á sér stað. Nú hefst dans sem verður æ hraðari með árunum því flestir vilja ná í bita af kökunni. Hann er leiddur af bankastrákunum nýju sem gerast spámenn heillar þjóðar. Þeir velja danssporin og slá ryki í augu embættis-, og ráðamanna. Dansað er eftir fyrirmælum sem komið er til skila með látlausum oflátungshætti í fjölmiðlum. Og Kauphöllin verður musteri tilbeiðslunnar þar sem gengi hlutabréfa rýkur upp úr öllu valdi er speglast í skýjaborgum verðbréfastráka og stjórnenda fyrirtækja. En ekki raunverulegu verðmæti þeirra. Og leika gárungarnir sér að mannorði þjóðarinnar.
Hrun
Á þungbúnum októberdegi í regnviðri ávarpar forsætisráðherra landsmenn úr sjónvarpssal. Hann opinberar ástandið sem er alvarlegra en nokkurn mann órar fyrir. Þjóðarskútan berst um í ölduróti. Spurning dagsins er hvort hún splundrist eða hægt sé að ná henni á flot með aðstoð vinveittra landa. Það er eins og þegnunum sé gefið á kjaftinn. Landsfaðirinn varar þjóðina við að leita að sökudólgnum né persónugera mistökin. Hann slær ryki í augu landsmanna og kennir heimskreppunni um orsök ófaranna. Nú á að horfa fram á veginn og gleyma því liðna. Þrátt fyrir að nokkrir tugir karlmanna og stjórnkerfið í heild hafi komið landsmönnum í klandur. Í lok ávarpsins er slengt framaní þjóðina „Guð blessi Ísland“.
Bankastrákarnir
Á skömmum tíma myndast í landinu bankaelíta sem veit ekki lengur hvernig á að eyða peningunum og drekkur kampavín af stút eða spreyjar því á gesti sína. Verðlag spennist upp úr öllu valdi á því sem hún kemur nærri. Ekki líður á löngu áður en íburðurinn verður lýðum ljós og hallir rísa í höfuðborginni og upp um sveitir. Laxveiðileyfi eru keypt upp í dýrustu ánum og heilu veiðilendurnar eru leigðar til þess eins að skjóta rjúpu og gæs. Fínast af öllu, þegar boðið er til hátíðar, er að fylla breiðþotu af boðsgestum og veita þeim risnu í einum af glæsisölum heimsborganna. Og bjóða uppá gullflögur í matinn. Einnig er þotið með pólitíkusa og sérstaka viðskiptavini á íþróttaviðburði eða popptónleika í útlöndum. Hjarðeðlið ræður ferðinni.
Útrásarvíkingar
Útrásarvíkingarnir auka tímabundið hróður landsins út um víða veröld. Enda gerist forseti ,,stórasta lands í heimi“ skósveinn þeirra og þvælist um veröldina þeim til dýrðar og framdráttar. Flestir ráðamenn þjóðarinnar leika með í blindni sinni enda missa þeir forystuna í hendur snillinganna. Það er eins og hendi sé veifað, dýrðin sekkur í sandinn sem hún hefur verið byggð á. Fjármálakerfi heillrar þjóðar kemst í bobba. Landsmenn og afkomendur þeirra fá það hlutverk að taka á sig skuldaklafa óreiðumannanna næstu áratugina.
Olíufurstarnir
Undir sléttu og felldu yfirborðinu kemur margt gruggugt í ljós. Olíufurstarnir og meðreiðasveinar þeirra hafa bandalag sín á milli og hittast á leynifundum til þess að ákveða hvernig eigi að samræma verðið, deila og drottna – stundum úti í guðsgrænni náttúrunni. Innrætið kemur gleggst fram í tölvupóstsendingum þeirra á milli. Einn þeirra segist ,,stinga“ menn til þess að ná þeim í viðskipti. Og annar segir berum orðum: ,,Fólk er fífl.“ Rannsókn málsins tekur áraraðir og á endanum er ákæra gefin út á hendur forstjórunum þrem. En félagar þeirra sem vinna skítverkin sleppa með skrekkinn. Málaferli fara fram og dómur er kveðinn upp. Það kemur í ljós að fyrirtækin eru dæmd fyrir lögbrotin – þrátt fyrir að þau séu af mannavöldum.
Kapphlaupið um orkuna
Viðskiptasnillingur sem fer fyrir peningaöflunum er ungur að árum, líkist frekar saklausum fermingardreng en útsmognum bragðaref. Hann hefur malað gull á ofurlaunum sem eru úr takt við allt siðferði og sölu á hlutabréfum sem reynast verðlaus eftir bankahrunið. Enda búinn að koma öllu sínum gróða fyrir í stóru löndunum og fjölskyldunni í ofanálag. Nú hefur hann í hyggju að halda áfram að mergsjúga landa sína, án þess að taka nokkra áhættu sjálfur.
Forstöðumaðurinn
Ólæti brjótast út annað slagið fyrir utan stofnunina, rúður eru brotnar og barið er í tæki og tól sem ætla að æra vegfarendur. Krafist er að forstjórinn og stjórnarmenn sem spilað hafa með í leiknum, segi af sér. En verst er að mennirnir gera sér ekki grein fyrir ábyrgð sinni og sitja sem fastast í skjóli flokksbræðra sinna. Mánuðir líða en korteri fyrir stjórnarslit segir viðskiptaráðherra forstöðumanninum og fylgdarsveinum hans upp störfum til þess að bjarga eigin skinni. Þegar betur er að gáð ríður ungi spekingurinn ásamt félögum sínum, feitum hesti frá ábyrgðarstörfum sínum – einmitt fyrir að sofa á verðinum.
Hversdagshetjur
Þegar einn mótmælendanna er handtekinn án lagaheimildar sprautar lögreglan piparúða yfir þá sem mótmæla og reyna að ryðjast inn í lögreglustöðina og frelsa fangann. Á sama tíma ganga sökudólgarnir lausir með milljarða í rassvasanum sem þeir hafa arðrænt af þjóðinni. Réttlætiskennd fólks er misboðið sem kyndir undir enn meiri mótmæli. Almenningur krefst alþingiskosninga sem fyrst og réttlátara þjóðskipulags þar sem allir eru jafnir að lögum. Krafan er ,,Nýtt Ísland.“
Mótmæli
Ljós í myrkrinu er þegar blandaður kór kemur stöku sinnum fram og fær mótmælendur til þess að syngja með sér þjóðsönginn og gamalkunn þjóðlög. Auk þess er sunginn útfararsálmur ríkisstjórnarinnar. Það líður ekki á löngu þar til stjórnin springur og hrökklast frá rúin trausti og virðingu. Það er fyrsti sigur búsáhaldabyltingarinnar.
Kreppa
Á sama tíma er gósentíð hjá skilanefndunum sem greiða úr fjármálaflækjum bankanna enda sitja þær við kjötkatlana eftirsóttu. Þannig nýta þær sér aðstöðuna til þess að moka sem mest undir sig og sína – án þess að blygðast sín.
Orkulaus við orkuhúsið
Eftir eina slíka sýningu ætlar gestur nokkur að aka bifreið sinni heim. Þá neitar bíllinn að fara í gang hversu vel og lengi sem maðurinn startar honum með mismunandi tilþrifum og tilheyrandi andvörpum. Að endingu gefst hann upp og rýkur inn í orkuhúsið til þess að leita að orku. Hann hittir listamannin góðkunna sem sýnir verkin sín í salnum og segir honum farir sínar ekki sléttar. Sá hinn sami vippar sér út að ökutækinu, sest í bílstjórasætið og kemur því með lagni í gang. Það lítur svo út að orkuboltinn hafi borið með sér dularfulla orku út úr orkuhúsinu.