Vinjettur XVIII

Fjöldi innflytjanda, víða úr heiminum, hefur sest að á Íslandi á undanförnum árum. Í Vinjettum XVIII eru portrett sögur af nokkrun þeirra og raktar ólíkar ástæður fyrir komu þeirra og hvernig þeim hefur vegnað í nýja landinu. Auk þess eru portrett sögur af frumherjum á mismunandi sviðum þjóðlífsins áhugavert fólk sem Ármann Reynisson hefur kynnst á lífsgöngunni. Einnig eru sögur um samskipti fólks í daglega lífinu og álitamál samtímans reyfað. Eyjafjörður er eitt blómlegasta hérað Íslands og hefur lengst af staðið framarlega í landbúnaði, útgerð, menningu og verktækni hvers konar. Margar vinjettur í bókinni tengjast þessu landsvæði.

Alls staðar nýtur sín vel hinn einstaki stíll höfundarins sem er í senn knappur, ljóðrænn og þó raunsær og vekjandi. Vinjetturnar eru tilvaldar til upplesturs við margvísleg tækifæri.


Kaflar

Krossmark

Eftir síðari heimsstyrjöldina geisar kalt stríð milli austurs og vesturs með vígbúnaðarkapphlaupi
og ótta heimsbyggðarinnar um að kjarnorkustyrjöld bresti á. Austur-Evrópa er undirokuð af Sovétríkjunum. Í valdatíð Gorbasjoffs mildast harðlínustefna Kremlverja og þíða kemst í samskipti stórveldanna. Í Eystrasaltsríkjum eru háværar frelsiskröfur sem leiða til þess að Litháen lýsir yfir sjálfstæði 1990 en Eistland og Lettland bíða átekta. Vestræn ríki skirrast við að viðurkenna
sjálfstæðiskröfuna af ótta við að styggja valdhafana í Moskvu.

Óperusöngkonan

Rússar hertaka hluta landsins og koma á kommúnískri alræðisstjórn. Þegar Sieglinde, sem stefnir á söngnám, er skipað að vinna í varahluta-verksmiðju er henni nóg boðið og ákveður að flýja með frænda sínum til Vestur-Þýskalands. Þau skríða eins og ánamarkar væru, í skjóli nætur, milli vígbúinna varðturna sem beina kastljósum fram og til baka á landamærasvæðinu. Það nístir í merg og bein allslausa unglingsins sem uppljómar af gleði þegar áfangastaðnum Harzgerode er
náð í morgunsárið. Frændfólkinu er tekið opnum örmum.

Hermaðurinn

Smám saman missir Adem tilfinninguna fyrir foreldrunum. Hann verndar systur sínar en bróðirinn strýkur af hælinu. Unglingurinn nýtur þess að teikna, útskrifast af heimilinu fimmtán ára gamall – vísað út í buskann. Á götunni dvelst Adem í tvö ár og fær stöku sinnum vinnu við byggingastörf. Til þess að komast á fastan kjöl gengur gjörvulegur maðurinn í sérsveit hersins. Á þeim vettvangi ætlar hann sér frægð og frama. Eftir stutta dvöl í þjálfunarbúðum, brýst út hatrömm
borgarastyrjöld sem sundrar að lokum júgóslavíska samveldinu í sex ríki. Það verður hermanninum skelfileg lífsreynsla að ganga í gegnum hörmungarnar með tilheyrandi óreglu. Að loknu þriggja ára helvíti á jörðu, sem tætir persónuleikann, segir Adem sig frá hermennskunni og leggur stund á múrverk í Belgrad. Eftir nokkurra ára dvöl og söknuð heldur hann heim í átthagana sem tilheyra núorðið Bosníu. Þar ríkir upplausn og óreiða.

Helsi

Lengi vel hefur ríkt vargöld í Afganistan. Ættbálkar og herlið tveggja heimsvelda hafa háð stríð um landið þvert og endilangt. Fjöldi landsmanna leggur á flótta, allslaus, yfir landamærin til nærliggjandi landa. Viðtökur flóttafólksins eru oft á tíðum kuldalegar – það fær ekki borgaraleg réttindi. Litið er á fólkið sem annars flokks íbúa, óheimilt að ferðast út frá þeim stað sem búið er á, læknaþjónusta í lágmarki og skólaganga takmörkuð. Lífsbaráttan er hörð, illa launuð svört vinna í
boði. Neðanjarðarhagkerfi blómstrar. Stærsti hluti afkomendanna er ríkisfangslaus og það er erfiðleikum bundið að fá vegabréf í upprunalandinu. Flóttamennirnir eru á milli steins og sleggju. Lífshlaupið er hægfara dauði.

Trúlofun

Hægt og sígandi hefur þyrlan sig til lofts og flýgur lágflug yfir stórbrotið hálendið. Í ljós kemur Askja, bogalagaður eldgýgur og vatnið í honum glitrar sem silfurslegið væri. Skammt undan er Herðubreið, drottning fjallanna, sem hefur ástleitið yfirbragð. Þyrlan hækkar flugið og lendir á fjallstoppnum. „Ertu að meina þetta,“ hrópar Hulda orðlaus af undrun og veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Parið kemur sér fyrir í gróðurvin á hrjóstrugum fjallstoppnum og handsaumaður dúkur móður Davíðs er breiddur út. Tekið er upp dýrindis Krug kampavín með tilheyrandi smelli og tappaskoti. Skálað er í uppháum kristalsglösum og gætt sér á konfekti frá HR súkkulaðimeistara.

Eyjafjörður

Í fjarðarbotninum býr mikilfenglegur dreki, landvættur Norðurlands. Hann liðast á tíðum yfir fjórðunginn í líki norðurljósa með rauða eldtungu og stingandi kúlulaga augu. Drekinn hefur ekki náð að verja nema vestari hluta hans fyrir ásælni alþjóðlegra auðhringa. Þeir svífast einskis að mergsjúga landið með stóriðju sinni. Það sama gera erlendir fjáraflamenn með kaupum á jörðum sem enginn veit í hvaða höndum lenda um síðir. Gera má ráð fyrir því að þjóðin fái þá alvarlegt
bakslag.

Arnarnes

Sjávarmeginn er rismikil álfaborg og grýtt fjara við klettaræturnar. Ævintýri líkast er að sjá brimið brjóta af öllu afli upp á klettana. Þegar fjarar út á góðviðrisdögum eru hér heimkynni Hafrúnar hafmeyjar og Sævars marbendils. Skötuhjúin eiga hvort um sig sérstakan ávalan stein til að sitja á þegar þau koma upp úr sjónum til hvíldar og hugleiðslu. Þegar vel liggur á skötuhjúunum eru þau til í spjall við mannfólkið sem fer fram í myndum eða tónum.

Lesa meira

Aðrar bækur