Vinjettur XVII

Nokkrar sögur í Vinjettum XVII eru af þjóðlegum toga; aðrar úr daglega lífinu og samtímanum. Jólasveinarnir þrettán kvænast jólasveinkum sem koma til sögunnar, álfar, tröll og huldufólk læðast inn í nokkrar vinjettur. Þá eru sögur sem tengjast Suð-Austurlandi, einnig Skagafirði og Tröllaskaga þar sem jólasveina- og jólasveinkulandið er að finna. Einnig eru portrett-sögur af áhugaverðu samtímafólki sem Ármann Reynisson hefur kynnst á lifsleiðinni. Það er fjölbreytilegur hópur fólks sem sinnir meðal annars andlegum og verklegum störfum, setur sterkan svip á starfsumhverfi sitt og þjóðlífið.

Alls staðar nýtur sín vel hinn einstaki stíll höfundarins sem er í senn knappur, ljóðrænn og þó raunsær og vekjandi. Vinjetturnar eru tilvaldar til upplesturs við margvísleg tækifæri.


Kaflar

Í skugga sólar

Sverrir er að eðlisfari opinn og hress en illvígur ef honum er misboðið og svíður ójöfnuður – jafnaðarmaður fram í fingurgóma. Hann kynnist persónulega áhrifafólki víða um heim, þeirra á meðal Simon Wisenthal sem samnefnd stofnun er kennd við og Fidel Castro leiðtoga Kúbu. Listamaðurinn tekur ástfóstri við Rómönsku Ameríku og þar rís hæst vinátta þeirra meistara Sebastians sem er mexikóskur myndhöggvari í fremstu röð. Afrakstur samstarfs þeirra er
Alþjóðlegur höggmyndagarður í Hafnarfirði.

Glæpasagnahöfundurinn snjalli

Lengi vel er glæpasagan ekki talin til bókmennta, litin hornauga af menningarvitum og höfundar hennar eru álitnir ófínir pappírar. Á sama tímaskeiði og dregur úr áhuga á trúmálum, ofbeldi eykst og öldur hryðjuverka ganga yfir lönd og þjóðir er glæpasagan hafin upp til skýjanna. Stofnaðir eru glæpasagnaklúbbar og úthlutað viðurkenningu fyrir bestu glæpasögu ársins. Bókmenntagagnrýnendur taka að lofsyngja snilldina, jafnan byggða á formúlu, með hlátrasköllum inn á milli og auglýsingaherferðir nýrra glæpasagna verða viðameiri með hverju árinu sem líður. Dágóður hópur rithöfunda helgar sig listinni því glæpasögur seljast sem heitar lummur væru. Slegist er um að fá glæpasagnahöfunda í fjölmiðla og til að lesa upp úr verkum sínum.

Dyrhólaey

Dyrhólaey er ráðstefnustaður huldufólks landsfjórðunganna og þangað safnast það saman á haust- og vorjafndægri. Þar er haldið landsmót mikið, hátíð með dansi, söng og kappleikjum, í tilefni árstíðaskiptanna. Bindindi hvers konar er í hávegum haft eins og ávallt hjá hulduþjóðinni enda enga vínbúð að finna í hulduheimum. Í leiðinni er haldið þing og deilumál útkljáð auk þess sem rætt er um landsins gagn og nauðsynjar. Að lokinni hátíð heldur huldufólkið, glatt í
sinni, gangandi eða ríðandi til sinna ósýnilegu heima vítt og breitt um landið.

Katla

Hin ógæfusama vinnukona hleypur upp Kötlujökul og steypist í eldfjall er síðar nefnist Katla og trónir sem drottning yfir Mýrdalsjökli vegfarendum til augnayndis. Allar götur síðan hefur Katla minnt á sig á hverri öld og hefur gert íbúum Álftavers hvern grikkinn á fætur öðrum. En aldrei fram á þennan dag náð ætlunarverki sínu.

Þakklæti?

Aldraður faðirinn, með úfið hár og rennandi tóbakstaum úr nefi, sveiflar stafnum í hendi sér út í loftið og segir hvassri röddu við soninn: „Réttast væri að hýða þig fyrir að vakna of seint til verka.“

Staðið í stað

Óvænt opnast útidyrnar á Klettaborg og skeggjaður roskinn karlmaður, Kolbeinn Árnason að nafni, boginn í baki kemur út og heilsar. Kolli eins og hann er jafnan kallaður býður fólkinu inn í kaffi og spjall. Þar er allt með gamla laginu, skipulögð óreiða og rykugir blaðabunkar hér og þar. Í eldhúsinu liggja áhöld tvist og bast eins og eftir sprengingu.

Tröllaskagi

Það kemur ekki á óvart að Tröllaskagi, völundarhús að innanverðu, er heimkynni jólasveinanna þrettán og foreldra þeirra Grýlu og Leppalúða. Vistaverurnar eru stórar og jarðgöng liggja milli þeirra. Hver íbúanna hefur sitt eigið herbergi með þvottaskál á borði og kopp undir rúmi. Hellirinn er án hitaveitu og rafmagns en risastór tólgarkerti lýsa upp og veita dálítinn yl. Þar af leiðandi klæðist fjölskyldan þykkum ullarfatnaði með húfu á höfði, trefil um hálsinn, vettlingum á höndum og sauðskinnsskóm á fótum. Í eldhúsinu, yfirráðasvæði Grýlu, eru hlóðir góðar og stórir pottar og pönnur til matargerðar. Étið er við risastórt rekaviðarborð þar sem eldur lifir í eldstæði allan ársins hring sem og í rúmgóðri eldsmiðju Leppalúða með físibelg, steðja og öðrum verkfærum. Upp í gegnum fjallgarðinn liggur strompur og þaðan ber reykmökk við himin. Matfanga aflar hyskið á sjó og landi og matbúa að fornum sið. Gæludýr þeirra er jólakötturinn ægilegi, svartur á lit, – slóttugur eins og refurinn sjálfur. Háannatíminn er þrettán dögum frá og með jóladag.

Lesa meira

Aðrar bækur