Vinjettur XIV

Íslensk matargerð hefur tekið stakkaskiptum frá því Ármann Reynisson sleit barnsskónum og hann hefur notið þess að fylgjast með þróuninni. Um það bil helmingur af 43 sögum í Vinjettum XIV fjalla um gamalgróna veitingastaði í Reykjavík ekki síst vertanna sem þá reka, umhverfi og umgjörð þeirra. Og persónurnar  sem koma við sögu eiga sinn þátt í að lyfta íslenskri matarmenningu í alþjóðlegar hæðir. Þá eru portrett-vinjettur af nokkrum stórbrotnum persónuleikum og áhugaverðum persónum úr daglega lífinu sem höfundurinn hefur kynnst á lífsleiðinni. Einnig ber við auga fjölbreitt efni af öðrum toga en bókinni lýkur á vinjettu um síðasta vatnsberann á Íslandi.


Kaflar

Hótel Borg

Við Austurvöll, virðulegasta torg landsins, stendur Hótel Borg, klassísk bygging, sem tekin er í notkun alþingishátíðarárið eftirminnanlega. Frumkvöðullinn Jóhannes glímukóngur, kenndur við Borg, reisir höllina þegar hann kemur heim frá Ameríku, með fullar hendur fjár, eftir að hafa starfað við sirkus vítt og breitt um hið víðáttumikla land og vakið athygli fyrir hreysti og karlmennsku. Síðan hafa stórviðburðir átt sér stað í veislusölum hótelsins, sem lengi er talið eitt það fínasta á norðurhjara veraldar, Gyllta salnum og Borg. Á fjórða áratug tuttugustu aldar dansar ítalski flugkappinn Bilbaó og félagar hans valsa við reykvískar ungmeyjar. Þegar heimsstyrjöldin geisar snæðir Winston Churchill á veitingastaðnum og reykir síðan Havana vindil sér til ánægju. Ekki löngu síðar syngur leikkonan Marlene Dietrich í Gyllta salnum og heillar viðstadda með glæsilegri sviðsframkomu sinni og seyðandi rödd. Og á níunda áratugnum heldur
Ármann í Ávöxtun þar sínar eftirminnanlegu veislur. Lengi vel er dansað síðdegis á sunnudögum og síðar á kvöldin um helgar. Einnig eru haldnir fundir stjórnmálaflokka og félagasamtaka hvers konar. Í miðdegiskaffi hittast félagar áratugum saman og skrafa um dægurmál. Að ógleymdum jólatrésskemmtunum sem gleðja börnin um hátíðarnar.

Páll þjónn

Drjúga stund fyrir hvert boð kemur þjónninn í sínum daglegu fötum, setur á sig flöskugræna svuntu og hefst handa um allan undirbúning í samráði við gestgjafann. Auk þess gengur hann um heimilið og athugar hvort ekki sé allt í röð og reglu. Þá tekur þjónustumaðurinn til kristal, postulín og borðbúnað sem hæfir hverju sinni og strýkur af ef þörf krefur. Síðan er komið að bökkum, dúkum og tauservéttur brotnar listrænt. Eftir það er lagt fallega á borð og blómaskreytingum
hagrætt, kertaljós tendruð og lýsing stillt. Ef um matarboð er að ræða spjallar þjónninn við kokkinn um alla tilhögun. Áður en gestir koma fer hann afsíðis og olíugreiðir aftur þykkt svart hárið, ber á sig andlitskrem, skolar snyrtilegar hendurnar. Síðan klæðir ungi maðurinn sig í kjól og hvítt, setur á sig hanska í stíl og fer í gljáburstaða skó. Nú er þjónninn tilbúinn til leiks með hvítt handstykki á
hægri hendi og tekur virðulega með höfuðhneigingu, fölleitu brosi, töfrandi augum og lokuðum vörum á móti gestum.

Hafliði súkkulaðimeistari

Snemma á nýrri öld sést mynd í dagblaði af gjörvilegum dökkhærðum karlmanni brosandi í hvítum bakarajakka. Athygli vekur að hægri höndin er súkkulaðihjúpuð og upprétt að munni og maðurinn virðist glefsa í þumalfingurinn. Það kemur ekki á óvart að hér er súkkulaðimeistari á ferð sem slær nýjan tón í súkkulaðimenningu landsins svo um munar. Meistarinn byggir upp eigin
konfektgerð með úrvali af náttúrulegu hráefni, til framleiðslunnar. Allt efnið er af bestu gerð og hann viðar því að sér vítt og breytt frá ræktendum í fjarlægum löndum. Efniviðurinn skiptir höfuðmáli fyrir gæði vörunnar. Hver einasti konfektmoli er handgerður. Og útkoman er aðdáunarverð þegar súkkulaðimolinn bráðnar í munni og bragðtegundirnar leika á hörpu bragðlaukanna svo útkoman verður sælustund þess sem nýtur. Viðskiptavinur sem kemur inn í H.R. konfektbúð í Miðbæ við Háaleitisbraut skynjar heimsborgaralegt umhverfi sem býður upp á eitthvert það besta súkkulaði sem um getur þó víða væri leitað.

Úlfar kokkur

Úlfar Eysteinsson fæðist þrem árum fyrir miðja tuttugustu öld. Hann er tæplega meðalmaður á hæð, þéttur á velli, stórgerður og sköllóttur með gráleit augu og útgeislun svo eftir er tekið. Maðurinn er jafnaðarpersóna og gleði ríkir í huganum, sem smitar út frá sér við fyrstu kynni, dagfarsprúður og geðgóður en ef hann reiðist þá reiðist hann. Helstu áhugamál matreiðslumeistarans utan starfsins er rallýakstur, sjóstöng og bridge og þá gleymir hann sér um stund og hvílist frá erli dagsins. Best kann Úlfar við sig í eldhúsinu að dansa tangó við diskinn.

Hestabúgarðurinn Laxnes

Þegar halda skal til Þingvalla, þar sem hjarta þjóðarinnar slær, er ekið í austur frá
Vesturlandsvegi eftir Mosfellsdal endilöngum, grösugum grundum með
töluverðum trjágróðri og lágum fjöllum. Fljótlega sést á vinstri hönd Mosfellskirkja
sem stendur hátt og fellur vel að landslaginu. Skömmu síðar ber fyrir augu
Laxnes, hestabúgarð sem stendur á gömlum merg, með myndalegum útihúsum
fyrir aftan íbúðarhúsið og hestarétt að framanverðu. Þegar ekið er eftir
heimreiðinni verður ferðalangur var við Köldukvísl sem streymir niður dalinn. Frá
hlaðinu er fögur útsýn vestur yfir svæðið og út til hafs. Hér ólst nóbelsskáldið
upp, drakk í sig fróðleik og tók sín fyrstu skref út í heim til frægðar og frama.

Síðasti vatnsberinn

Eftir grýttum götuslóða á Þórshöfn gengur lágvaxinn maður og sönglar lagstúf
svo undir tekur í þorpinu. Þetta gerir hann allan ársins hring í flestum veðrum.
Hann er með axlaslá um herðar sem í hanga tvær blikkfötur til sitt hvorrar hliðar.
Vatnsberinn er ekkert augnayndi, með úfið hár, töturlega klæddur, á höfði
húfuræksni, hefur vettlingagarma á höndum og stígvél af sitt hvoru tagi. Það er
stæk svitalykt af honum og sumir virða hann að vettugi og snarast í sveig framhjá
fyrirbærinu. Maðurinn er barngóður en einstaka þeirra launar vinsemdina með
stríðni og hlátrasköllum. Þá verður vatnsberinn sár og tár renna úr auga og væta
hvarm. Engu að síður virðist Valdi Fúsa jafnan glaður í bragði. Og dillandi hlátur
hans kemur mörgum til að brosa og ekki síst frumsamdar vísur sem hann kastar
listilega fram.

 

Lesa meira

Aðrar bækur