Vinjettur XV

Reykjavík hefur upp á margt að bjóða; náttúruundur, áhugaverða staði og ekki síst fjölbreytt mannlíf með hvers kyns sviptingum eins og skondnum nágrannaerjum sem fá oft óvæntan endi. Auk þeirra eru portret-vinjettur af stórbrotnum og skapandi persónum sem setja svip á bæinn en þeim hefur Ármann Reynisson kynnst á lífsleiðinni. Þá kveikja æskuminningar höfundarins nokkrar magnaðar frásagnir og bókin lýkur með sögum frá Búðum á Snæfellsnesi. Alls staðar nýtur sín vel hinn einstaki stíll höfundarins sem er í senn knappur, ljóðrænn og þó raunsær og vekjandi.


Kaflar

Gullgrafarinn

Dugnaðarforkurinn gerist gullgrafari í hinu fjarlæga landi og hefur rúmlega til hnífs og skeiðar. Hann ferðast víða og þefar uppi staði þar sem gull finnst í einhverjum mæli en ríkidæmið lætur á sér standa. Ameríkufarinn skrifast annað slagið á við mömmu sína og vinafólk.

Kogga

Leirlistakonan Kogga hefur hugrekki til að takast á við lífið í öllu sínu veldi og það þroskar hana og eflir til dáða. Hún lætur draum sinn rætast, nýtir til fulls efnivið hugans til sköpunar, er óhrædd að standa og falla með þeim hugmyndum sem hún vinnur úr og framkvæmir af áræðni. Útkoman er gallerí á heimsmælikvarða að Vesturgötu 5, Reykjavík, með hátt í eitt hundrað listvörulínur auk
sérunninna muna. Kogga fer höndum um alla gripi sem frá henni fara og hannar að smekkvísi öskjur og umbúðir sem þeim er pakkað inn í. Verk listakonunnar vekja aðdáun hvort heldur er fyrir egglaga form og festu, mynstur eða lit. Og margvísleg brennsla leirsins kemur meistaralega fram í áferðinni.

Lárus í 12 Tónum

Í hartnær tuttugu ár hefur verslunin 12 Tónar haslað sér völl líkust menningarstofnun sem örvar grasrót tónlistarfólks með áhugaverðri útgáfu á frumsamdri tónlist. Þannig hafa eigendurnir óbein áhrif á þróun íslenskrar tónlistar sem seint verður séð fyrir endann á – til þeirra er leita víða að og þekking félaganna á tónlistarsviðinu nýtist landi og þjóð.

Björgunarafrek

Í rökkrinu sem grúfir yfir fleygja mennirnir tveir sér í sjóinn og Hákon skipstjóri syndir frá bátnum, stutta vegalengd með Einar í eftirdragi, upp að skeri vestan við Þjórsárósa. Á óskiljanlegan hátt nær skipstjórinn að drusla félaga sínum, þrekuðum, og sjálfum sér upp á hált skerið þakið þara og öðrum sjávargróðri. Sjálfsbjargarviðleitnin er svo sterk að ekki er hugsað um annað en að komast af og Hákon skipstjóri skynjar óljósa nærveru. Félagarnir halda fast utan um hvorn annan og faðmast hressilega og halda á sér smá hita. Þeir eru komnir með skjálfta og hiksta orðunum upp úr sér þegar þyrla Landhelgisgæslunnar bjargar þeim eftir klukkustundar svaðilför.

Bíldruslan

Fljótlega á eftir hringir síminn og karlmannleg rödd nágrannans, þekktur forstjóri, heyrist og augljóst mál að honum er mikið niðri fyrir. Hinn virðulegi maður, sem þegið hefur með þökkum risnu nágrannanna, hellir sér yfir hjónin með ljótu orðbragði og segir að lokum: „Étið blómin í garðinum ykkar,“ og skellir síðan á. Skuggi hefur fallið á gleði hjónanna og samskiptin við grannana verða aldrei söm meðan báðir búa í hinni rómuðu götu. Forstjórinn fylgist með hverju
skrefi granna sinna – er staðinn að verki að ljósmynda inn um glugga hjónanna frá efri hæð hússins síns.

Kristallsnóttin

Á fallegu vorkvöldi með ljúfum fuglasöng sest höfundurinn í rauðan húsbóndastól sinn úrvinda af þreytu vegna áreitis og svefnleysis, fær sér sherrystaup sér til hressingar og hlustar á árstíðirnar eftir Vivaldi. Eftir stutta stund rís maðurinn á fætur, hækkar tónlistina svo um munar, klæðir sig upp í smóking með öllu tilheyrandi að ógleymdri handhnýttri silkislaufu. Síðan skýtur hann tappa úr kældri kamavínsflösku, hellir í göfugt kampavínsglas frá Bohemia og drýpur á. Því næst fer sá uppáklæddi inn í geymslu tekur fram allar flöskur og krukkur sem þar er að finna. Meðan skáldið drekkur vínið og skálar fyrir höfuðborginni þrusar hann markvisst út um stofugluggann glerinu með stórkostlegum brothljóðum og braki sem hljóma um götuna eins og heimsendir væri í nánd. Fiðringur fer um líkama höfundarins, blóðið ólgar og hann losar úr huganum hávaða-ofbeldið sem
hann hefur orðið fyrir mánuðum saman. Höfundurinn nær með athöfn sinni óbeinu taumhaldi á ástandinu.

Búðir

Áhugi á Búðum stóreykst á nýrri öld og fólk kemur flugleiðis víða að úr veröldinni og nýtur náttúrunnar – fyllir sig orku sem umhverfið býr yfir. Staðurinn verður um síðir miðstöð alþjóðlegra brúðkaupa.

Lesa meira

Aðrar bækur