Vinjettur XVI
Hvalfjörður og Vestmannaeyjar eiga það sameiginlegt að þar hafa gerst heimsögulegir atburðir og eru sögur í Vinjettum XVI tengdar þessum slóðum. Einnig fjalla nokkrar sögur um óvenjuleg atvik sem koma upp í lífinu . Auk þess eru portrett-vinjettur af stóbrotnum og skapandi persónum sem setja sinn svip á þjóðlífið en þeim hefur Ármann Reynisson kynnst á lífsleiðinni. Alls staðar nýtur sín vel hinn einstaki stíll höfundarins sem er í senn knappur, ljóðrænn og þó raunsær og vekjandi. Vinjetturnar eru tilvaldar til upplesturs við margvísleg tækifæri.
Kaflar
Marmaraklukkan
Við breiðstrætið 228, Rue De Rivoli í París stendur virðuleg nýklassísk bygging er hýsir hið gamalgróna Hótel Meurice frá 1835. Gegnt hótelinu er Tuileries garðurinn rómaði og Louvre- safnið – eitt það stórfenglegasta í veröldinni. Þegar gengið er inn blasir við hallarstemming líkast því að farið sé aftur í rokkókótímabilið þegar Versalir voru upp á sitt besta.
Bryndís Schram
Heimskonan er tígurleg með mýkt í hreyfingum, áberandi útgeislun, myndarlegt andlit, brún augu, sítt þykkt hár smekklega tilhaft. Bryndís er skýr í hugsun, einlæg og hispurslaus og hefur ríka þörf fyrir að tjá sig, næm á umhverfið og heldur uppi áhugaverðum samræðum. Hún talar gullfallega íslensku, leggur áherslu á mál sitt með mjúkum raddblæ og hóflegum handahreyfingum.
Klæðaburður er listrænn sem hæfir persónleikanum við hvert tækifæri og ber skatgripi vel.
Páll kvikmyndari
Af tilviljun gerist kennarinn leiðsögumaður þýska ljósmyndarans Hermanns Schlenker, í ferðum hans um landið og kaupir myndavél meistarans og þá hefst ljósmyndadella. Áratug síðar kemur Hermann aftur til landsins með kvikmyndatökuvél og sagan endurtekur sig. Ekki verður aftur snúið og Páll kyssir konu og börn og heldur til náms við New York University í kvikmyndagerð. Skömmu eftir heimkomuna hefst eldgos í Heimaey og næg verkefni framundan að mynda náttúruhamfarirnar. Úr verður heimildarmyndin Eldeyjan sem hlýtur gullverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Atlanta. Þar með nær kvikmyndarinn flugi og stofnar Kvik og hefur framleiðslu á heimildarmyndum sem margar hverjar fá viðurkenningar á kvikmyndahátíðum. Með sanni má segja að Eyjapeyinn hafi ekki getað fengið meiri lífsfyllingu í lífinu.
Talnaspekingurinn
Einstakur hæfileiki er að muna fæðingu sína og getað rifjað upp fyrstu fimm ár ævinnar eins og ekkert væri eðlilegra. En að þeim aldri fengnum, eftir föðurmissi, tapar barnið síðan minninu í heilan áratug. Það verður fyrir sterkum hughrifum af því að horfa á stjörnur himinsins á fyrsta ári auk þess að bera með sér dulræna hæfileika sem blómstra eftir þrítugt.
Paradísarfoss
Stuttan spöl frá þjóðveginum opnast þröngt gil og þegar genginn er troðningur norðan megin opinberast gróðursæl veröld. Það er líkast því að vera kominn í helgidóm. Af mosagróinni klettabrún steypast tvær silfraðar vatnssúlur með dágóðu bili á milli niður í hyl, holaðan í lágan bogalaga klett, og fram af honum renna þær í fernt ofan í grýttan árfarveg. Á þessum stað ræður ekki vatnsmagnið ríkjum né fallhæðin heldur látleysið og hin ljóðræna ásýnd sem sköpunarverkið í heild heillar ferðalanginn með. Hér er ró og friður og náttúruhljóðin hellast með
kröftugum hætti yfir gestinn líkast því sem ópíum sé sprautað beint í æð. Hið smáa verður stórt og göfugt og fegurðin ein ríkir. Frá Paradísarfossi gengur ferðalangurinn endurnærður.