Vinjettur XX

Strandir, Reykhólar og Dalir voru lengi vel með afskekktari byggðum á Íslandi. Frá þessum sveitum eru sögur í Vinjettum XX. Nokkuð skortir á kurteisi og vinsamlegheit í Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Ármann Reynisson skyggnist undir yfirborðið í þeim málum. Einnig eru margar sögur með öðru fjölbreyttu efni. Það fylgir Frakklandi einhver elegans sem fáum þjóðum tekst að toppa. Margar sögur eru frá ýmsum stöðum þessa rómantíska lands. Þá er til dæmis sagt frá sögulegum bruna Notre Dame í París, undiröldunni í þjóðlífinu og kynnum höfundar af eðalfólki hvort heldur hátt eða lágt í þjóðfélagsstganum í alls konar aðstæðum.

Alls staðar nýtur sín vel hinn einstaki stíll höfundarins sem er í senn knappur, ljóðrænn og þó raunsær og vekjandi. Vinjetturnar eru tilvaldar til upplesturs við margvísleg tækifæri.


Kaflar

Notre Dame í París

Það er logn á undan storminum. Innan tíðar blossa eldtungur upp af þaki Notre Dame, hræra við heimsbyggðinni, rísa hátt til himins líkast að eldgos er hafið í miðri París. Vaskir slökkviliðsmenn, tugum saman berjast hetjulega við ógnandi eldinn næturlangt og fram á morgun. Þak dómkirkjunnar fuðrar upp og verður að ösku en steinveggirnir standast eldraunina.

Móna Lísa

Jarðlitir olíumálverksins vefjast saman í eina órofna heild og mörkin milli þeirra eru óljós. Það fer ekki á milli mála að listamaðurinn gaf hjarta sitt í listaverkið sem hreyfir við áhorfendum allar götur frá því að portrettið var skapað.

Eiffel-turninn

Þegar betur er að gáð kemur ýmislegt í ljós þegar horft er oft, lengi og vel á Eiffel-turninn úr fjarlægð sem fæstum dettur í hug við fyrstu sýn. Eflaust sumum aldrei. Einmitt, að um sé að ræða eitt tilkomumesta reðurstákn veraldar.

Château des Gimarets

Á mörkum Búrgundarhéraðs og Beaujolais á Moulin á Vent svæðinu í Frakklandi stendur um aldir kastalinn Cháteau des Gimarets sem brennur til rústa aldamótin átjánhundruð. En útihúsið frá 1650 sleppur óskemmt. Nokkru síðar árið 1814 er byggt reisulegt herrasetur sem heldur nafninu á lofti. Í héraðinu hefur vínrækt verið stunduð um aldir allt frá dögum Rómaveldis.

Föstudagsmótmæli stúdenta

Heimurinn er að vakna upp við ljótan draum. Sérfæðingar hafa um tíma varað við hlýnun jarðar sem ógnað getur mannfólkinu sé ekki gripið í taumana nú þegar. En þeir hafa talað fyrir daufum eyrum.

Söngkona götunnar

Á áttræðis aldri sest söngkona götunnar að í Marseille. Þar ætlar Fanny Rose að detta dauð niður syngjandi á hafnarbakkanum, framan við kirkjuna Eglise Saint-Ferréol les Augustins, þegar klukkan slær nákvæmlega tólf á hádegi einhvern daginn í framtíðinni.

Gulvestungar

Franska byltingin 1789 markar tímamót í baráttu mannkyns fyrir frelsi, jafnrétti og bræðralagi. Almenningur rís upp gagnvart einveldi ,,sólkonungsins‘‘ sem lifir í fílabeinsturni úr tengslum við þjóðina, sem komin er að fótum fram. Mismunun íbúanna og óréttlætið er geigvænlegt og hluti þjóðarinnar á ekki til hnífs né skeiðar. Allar götur síðan hefur sagan endurtekið sig. Það fellur margt í hinu opinbera kerfi í sama horf að ákveðnum tíma liðnum. Margir telja enn í dag að byltinginunni sé ekki lokið.

Gleðikonur í heimahúsum

Talið er að vændi í hverskonar mynd sé elsta atvinnugrein mankyns sem seint eða aldrei ætlar að lognast út af. Fólk byrjar að selja aðgang að líkama sínum af mismunandi ástæðum, oft fjárhagslegum erfiðleikum. Þá getur ástvinur knúið viðkomandi út á götuna eða glæpahringur: einnig stríðsherra rænt eða tælt bráð sína og neytt í kynlífsánauð. Einstaka selja sig af frjálsum og fúsum vilja.

Kvikmyndajöfur Íslands

Á fögrum og sólríkum degi í sumarbyrjun situr virðulegur dökkklæddur herramaður á bekk í grasagarðinum í Laugardal. Hann horfir hugsi út á sléttan andarpollinn sem umhverfið speglast í. Til hliðar er kerra með sofandi sonarsyni. Í tæru vatninu sér Friðrik Þór Friðriksson (1954) lífshlaup sitt birtast sem í kvikmynd væri.

Úr herforingjatign í æðardún

Frá Miðhúsum í Reykhólasveit sést vel yfir Berufjörð sem liggur að norðanverðu inn úr Breiðafirði yfir á Skarðsströnd. Á firðinum eru ótal eyjar, sker og hólmar, með æðarvarpi, sem setja sterkan svip á landslagið. Sjórinn leikur kúnstir sínar inn á milli þeirra allt eftir veðrum og vindum. Við þetta sjónarspil, í afskekktri sveit á sínum tíma, slítur Jón Sveinsson (1955) barnsskónum.

Bíó Himnaríki

Að vonum kemur upphlaupið í opna skjöldu – bíóstýran opinberar sinn innri mann. Áður en kvikmyndahúsið er yfirgefið spyr Snorri: ,,Hverra manna ertu bíóstýra‘‘? Síðan,, Úr hvaða skóla kemurðu‘‘? Fátt verður um svör en Duna náfölnar. Þegar út er komið þakkar Snorri Guði almáttugum fyrir að komast út úr helvíti.

Þjófur að nóttu?

Grímur er hugrakkur. Snýr sér strax við og horfir hvasst á Sæla, stappar niður fótunum ótt og títt og hrópar margoft hástöfum: ,,Í nafni Guðs föðurs, sonar og heilags anda.‘‘ Og gerir krossmarki í hvert skipti fram fyrir Sæla sem lyppast niður eins og tuskudúkka.

Jörfagleði

Flest fer úr böndum, þegar fram í sækir, vegna drykkjuláta, ósiðsemis og taumleysis. Það veldur því að margar konur verða þungaðar og ala óskilgetin börn níu mánuðum síðar – svonefnda sveitaómaga. Þvílík ósiðsemi er stór synd og glæpur sem yfirvöld  sporna við með öllum tiltækum ráðum; prédikunum, lögum og reglugerðum. Leikar fara þannig að jörfagleðin er stranglega bönnuð af voldugum sýslumanni héraðsins – mektarmanni.

Djúpavík í Reykjarfirði

Þegar ekið er norður Strandir áleiðis til Djúpavíkur liggur vegurinn inn og út hvern fjörðinn á fætur öðrum, upp og niður brekkur eða skörð ellega hangandi utan í fjallshlíðum. Fjölbreytnin er mikil og nálægðin við stórskorin fjöllin verður ögrandi á tíðum. Það er líkast að fjallgarðarnir ætli sér að gleypa ferðalanginn sem finnur sig hálfkraminn inn á milli þeirra. Á slíkum stundum kemur upp í hugann galdratilfinning sem getur magnað upp hugann og haft sín áhrif sé ekki tekið í tauminn – STRAX. Ekki að undra að galdrafár hafi öldum saman loðað við Strandamenn og geri enn.

Veiðileysa á Ströndum

Tröllskessan Kráka verður harmi slegin og ber sér á brjóst blótandi og bölvandi. Til þess að hefna örlaga sonanna ákveður Kráka að legga álög á fjörðinn sinn og öskrar svo undir tekur um allt: ,,Héðan í frá mun aldrei fiskast neitt í þessum hörmulega firði sem ég nefni  hér með Veiðileysu.‘‘ Síðan kastar Kráka sér í sjóinn og hefur síðan ekkert til hennar spurst.

Veðravíti

Í norðaustan átt skapast á tíðum í dalnum slæm veðurskilyrði, hreint helvíti, sem skelfilegt reynist mönnum að eiga við. Orsakavaldurinn er veðurstrengur sem kemur út yfir Ísafjarðardjúp fram fyrir Æðey. Þar sveigir strengurinn til suðurs yfir Glámuheiði, vatnasvæði virkjunarinnar. Á leiðinni nær strengurinn að magnast og slær sér bálhvass niður Hofsárdal og út á Borgarfjörð. Stundum með kröftugum vindsveipum. Þegar þannig stendur á sjá sjómenn á Arnarfirði í svartan vegginn og kalla Borgarfjörð aðra veröld.

Horft til himins

Mikið er um að vera í henni Reykjavík laugardaginn 10. ágúst 2019 þegar poppgoðið Eds Sheerans treður uppi á stórtónleikum á Laugardalsvellinum þá um kvöldið. Sem betur fer er veðurblíða mikil í höfuðborginni og sólin skín fram eftir kvöldi. Nærliggjandi götum við völlinn er lokað síðdegis og lögreglan stjórnar umferð hátt á fjórða tug þúsunda tónleikagesta sem streyma að úr öllum áttum. Stætisvagnar borgarinnar eru fengnir til að aka hluta gestanna á valda áfangastaði. Margra kílómetra biðröð myndast frá inngangshliðinu eftir endilöngum dalnum. Það pirrar suma. Enginn heyrist kvarta yfir himinháu miðaverði. Meira að segja er gleðigöngunni á ,,Hinsegin dögum‘‘ frestað um viku. Líf og fjör er á tónleikunum og allir virðast skemmta sér æðislega – annað er ekki hægt.

Gullþráðurinn

Í Öskjuhlíð býr tröllskessan Gríma sem spinnur gullþráð í klæði. Hún hefur þann sið að raula sama lagstúf við vinnuna sína daginn út og daginn inn. Þeir einu sem  heyra sönginn hafa næmt eyra og ganga á hljóðið. Eftir miðja tuttugustu öld hittir Melkorka, ein á ferð, af tilviljun skessuna við vinnu sína skömmu fyrir brúðkaup sitt sem fara á fram í Dómkirkjunni í Reykjavík.

 

 

 

 

Lesa meira

Aðrar bækur