Vinjettur XIX

Efniviður í Vinjettum XIX er fjölbreyttur í meira lagi. Í fyrsta hluta bókarinnar eru sögur frá Róm, borgin eilífa, St´Agata og Sorrentíno-skaganum á Ítalíu sem höfundurinn hefur tekið ástfóstri við – auk þess Berlín og Zürich. Miðhlutinn samanstendur af sögum sem tengjast Hólsfjöllum, Vopnafirði og Fljótsdalshéraði. Hvergi finnur Ármann Reynisson eins vel fyrir rótum íslenskrar menningar en á bóndabæjum, vel setnum, í sveitum landsins. Þriðji hluti bókarinnar eru sögur frá New York og Nýja-Englandi þar sem höfundinum hefur, óvænt, opinberast nýr heimur sem hann hafði ekki kynnst áður í Bandaríkjunum – og fær ríkulega að njóta.

Alls staðar nýtur sín vel hinn einstaki stíll höfundarins sem er í senn knappur, ljóðrænn og þó raunsær og vekjandi. Vinjetturnar eru tilvaldar til upplesturs við margvísleg tækifæri.


Kaflar

Róm

Í ljósaskiptunum dansa gyllt sól og fullt tungl tangó yfir borginni eilífu með alla
sína merku sögu hulda bak við flöktandi ljósleit silkitjöld. Kvöldhiminninn er
sveipaður purpuraskikkju og einstaka þokubleikir skýjabóstrar svífa í leiðslu um
himinhvelfinguna. Eftir skamma stund skellur myrkrið á, síðan taka rafmagnsljós
að flóðlýsa tilkomumikil mannvirki, götur og stræti. Bjarma þeirra ber við
stjörnubjarta uppheima. Á miðnætti bætist enn einn dagur, óskrifað blað, við sögu Rómar sem rennur síðan upp til lífsins. Tilhlökkun er að vita hvaða atburðir
gerast sem geta haft áhrif á þróun borgarinnar til framtíðar. Í árþúsundir á Róm
sínar hæðir og lægðir, gleði og sorg og hefur hún haft víðtæk áhrif á
heimsbyggðina sem um munar.

Trastevere

Hér og þar í Trastevere heyrist ljúfur hljóðfærasláttur og hrífandi söngur í
bland og götulistamenn fremja tilkomumikla gjörninga. Við allt þetta bætast
hrókasamræður og hlátrasköll. Hjá gosbrunninum góða tekur rómantíkin völdin
og kossar verða einn eða jafnvel fleiri.

St‘ Agata

Eflaust dreymir flesta um búsetu í Paradís eftir jarðvistina, en hvernig staður ætli
það sé? Þegar stórt er spurt er fátt um svör.

Cilento Orlando

Vertinn Cilento Orlando er mannþekkjari af Guðs náð. Þegar sá er gállinn á
manninum eru dyr opnaðar upp á gátt að áhugaverðu fólki svæðisins. Góðar
minningar fylgja ávallt gestkomanda Orlandobars heim í átthagana.

Don Alfonso 1890

Lífsstarf Liviu og Alfonso um hálfa öld, hefur verið að hefja matarmenningu
Ítalíu á hærra plan ekki síður en umgjörð máltíðarinnar. Við kyndlinum tekur
fjórða kynslóð Ernsto og Mario Iaccarino. Don Alfonso-fjölskyldan breiðir út
vænginn til hótels Mamounia í Marrakech og Grand Lisboa hótels í Macao.

Flugvélarræningi

Eftir dágóða stund þyrpast hermenn umhverfis flugvélina og fjórir alvopnaðir
lögreglumenn ryðjast til inngöngu. Þeir handsama hinn dularfulla mann og draga
hann með látum, öskrandi og spriklandi, út úr vélinni. Það uppgötvast á elleftu
stundu að náunginn komst fram hjá öllum öryggishliðum vallarins og af þeim
sökum talinn vera flugræningi. Uppnám verður í flugvélinni með tilheyrandi
hræðsluveinum og Hermanni er brugðið. Farþegarnir eru beðnir um að yfirgefa
vélina. Það tekur sinn tíma að yfirfara alla öryggisþættina upp á nýtt. Starfsmenn
flugfélagsins róa mannskapinn og telja honum trú um að allt verði gert af hálfu
fyrirtækisins til að greiða götur þeirra sem eiga áframbókað flug frá Gatwick en
missa af því vegna atviks þessa.

Vor í Berlín 2018

Hið kristna tákn opinberast öllum sem á turninn líta hvern einasta sólardag
eins lengi og mannvirkið stendur af sér tímans tönn. En valdakerfi hinna stórtæku
ráðamanna sem kennileitið reisa hrynur á einni nóttu, um hálfri öld eftir að
sjónvarpsturninn er reistur – fæstir gráta fall hins alræmda kerfis. Andstaða
kommúnistastjórnarinnar við kristindóminn snýst upp í andhverfu sína. Berlín
lifir jafnan gróskumiklu lífi í gengum súrt og sætt hvað sem á dynur.

Hólsfjöll

Í ljósaskiptunum tekur við stjörnubjartur himinn skreyttur ljósgrænum og
rauðleitum norðurljósum sem vefjast saman í hröðum og tilkomumiklum
sveiflum. Að ferðalokum er sem vaknað sé af sætum draumi eftir siglingu um
hásali himnaríkis.

Furðufuglinn

Þar sem ekkert sjónvarp er í Valhöll eru tilbrigði furðufuglsins og vinkvenna
hans heldur betur krydd í tilveruna fyrir Viðar í tilbreytingarleysinu. Hann bíður
spenntur eftir næstu heimsókn jarðfræðingsins að ári liðnu. Engum sögum fer um
vísindaafrek prófessors Timmermans – aldrei er sama konan með í för.

Silfurmaðurinn

Á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 hreppir Íslendingur silfrið í þrístökki sem
vekur heimsathygli. Afreksmaðurinn, fyrstur landa sinna að vinna til verðlauna á
Ólympíuleikum, er hylltur sem þjóðhetja. Afrekið þjappar saman hinni ungu
smáþjóð og hvetur íþróttamenn landsins til dáða í framtíðinni.

Hagyrðingurinn

Þegar þetta ástand hefur varað um árabil tekur sveitastjórnin sig til og flytur
húskofa nokkurn, með öllum nútímaþægindum, á Kárastaði. Það skilyrði er sett
fyrir hagyrðinginn, kominn við aldur, að búa í kofanum og að engin rolla fái að
koma þar inn. Á þetta er fallist möglunarlaust. Síðustu æviár Ástvaldar býr
uppáhaldskindin engu að síður hjá húsbónda sínum.

Borgarfjörður eystri

Miðsvæðis í plássinu stendur Álfaborg svipmikil á að líta og virkar sem segull á
heimamenn. Þar býr Borghildur álfadrottning Íslands, klædd í gull og glans, með
skrautlegri hirð sinni. Á nýársdag heldur álfaþjóðin veglegan fagnað með brennu
og blysför. Þá lýsast upp í rauðum litbrigðum Dyrfjöllin sjálf sem líkjast þrem
öxlum.

Lagarfljóts-ormurinn

Allt frá landnámi hafa Héraðsbúar séð bregða fyrir í Lagarfljóti ormi miklum.
Skepnan er hið mesta ólíkindartól og erfitt hefur verið að henda reiður á hana.
Engin regla er hvenær Lagarfljótsormurinn rís upp úr fljótinu til að viðra sig og
fylgjast með mannlífinu í héraðinu. Fræðimenn sem viljað hafa rannsaka
fyrirbærið á löngum vöktum sitja uppi með sárt ennið. Hvað þá teiknarar,
ljósmyndarar og filmarar sem ætla sér að gera heimildarmynd um undrið.
Á sama tíma fara sögur þeirra örfáu sem verða ormsins varir fjöllunum hærra
og margskonar útgáfur eru til af fyrirbærinu.

New York

Á Manhattan breiða skýjakljúfar úr sér líkt og Amasonfrumskógur væri. Inn á
milli liggja langsum breiðgöturnar tíu og strætin þversum hátt á annað hundrað
talsins. Fólk á göngu reigir höfuðið upp svo himin og stjörnur megi sjá. Inn á
milli trjágreinanna brjóta sólargeislarnir sér leið þvers og kruss ásamt gufustrókum
úr holræsum sem víða blasa við. Umferðarþunginn streymir áfram hægt en
bítandi inn á milli bygginganna allan sólarhringinn.

Sportbílferð

Þegar komið er til Berkshire-hæða í Massachusetts sjást húsdýr og myndarlegir
bóndabæir. Eftir rúmlega tveggja stunda akstur er ekið inn hliðið að landmiklu
herrasetrinu Edgewood í Cotswold-stíl. Höfundurinn stígur endurnærður út úr
sportbifreiðinni eftir ógleymanlega ökuferð.

Herrasetrið Edgewood

Á annan áratug drabbast Edgewood og umhverfi þess niður því enginn sér
tilgang í því að búa þar. Eftir síðari heimsstyrjöldina finnur hagfræðingurinn, sem
varaði við kreppunni miklu, Edward Crosby Harwood (1900–1980) setrinu
tilgang. Menntamaðurinn sem er nýkominn úr hildarleik síðari heimsstyrjaldar,
sér á þessum stað tækifæri til að hýsa til framtíðar höfuðstöðvar American
Institutute for Economic Research. Stofnun sem Harwood leggur grunn að árið
1933 og hefur á þessum tíma slitið barnsskónum.

Umhverfið

Frá virðulegu herrasetrinu Edgewood í Berkshire Hills sést til þriggja fylkja
Bandaríkjanna – fágætt þar í landi. Áhorfandinn stendur í Massachusetts og
horfir þaðan suður yfir Connecticut og til vesturs til New York. Landslagið
umhverfis er með bogalöguðum hæðum, trjávöxnum og grösugum dalverpum.
Að ganga um grasflötina, aftan við setrið, er líkast því að vera einn í heiminum
því að ekki sést til mannabyggða nema í fjarska.

Skógarferð

Frá hringiðu hagfræðinnar á Edgewood-herrasetrinu er stuttur spölur í skóglendi
landareignarinnar á Berkshire-hæðum. Þegar þangað er komið opnast ný veröld
útaf fyrir sig. Án vitundar um gang mála í Bandaríkjunum frekar en annars staðar
í heiminum. Smám saman yfirtekur hugsunina friðsæld náttúrunnar með sínum
sinfónísku hljóðum og leysir hugann frá daglegu amstri og áreiti. Gengið er á vit
skaparans í friðlandi sem er ósnortið af mannlegum yfirgangi.

Lesa meira

Aðrar bækur