Vinjettur IV

Vinjettur IV er fjölbreytt að efni eins og fyrri bækur Ármanns Reynissonar. Höfundurinn leiðir lesandann um heima ásta og blekkinga jafnt sem fegurðar íslenskrar náttúru og undur veraldar. Hann opnar augun fyrir nýjum sjónarhornum í lífinu þar sem velvild og illska takast stöðugt á. Velt er upp spurningunni hvaðan mannfólkið kemur og hvert það fer. Vinjetturnar eru á köflum ástríðufullar og jafnan gæddar lifandi myndum. Frásagnirnar eru tilvaldar til íhugunar og þær njóta sín vel í upplestri.


Kaflar

Miðnætursólin

Fram á mitt árið hækkar sólin á lofti, rís síðan í hæstu hæðir um miðsumarstíð, smátt og smátt lengjast dagarnir og birtan sigrar myrkrið um hríð. Miðnætursólin leikur sér létt á himinhvolfinu, brosir til þín og rauður bjarmi hennar litar land og lýð. Hún kallar á eftirtekt og gleður okkur sýn, hoppandi á sjónum út við sjóndeildarhring meðan við vökum eða göngum um. Tíminn er þá afstæður og nóttin björt og ung, börn og fullorðnir ærslast um í leikjum úti á túni. Þá gleymum við stund og stað og viljum helst vaka eins lengi og við eigum sólina að. Síðan lognumst við útaf þegar þreytan svífur á en leikurinn heldur áfram í draumheimum og náttúrunnar forsjá. Síðan fer að halla undan og haustið tekur við en nóttin hremmir aftur völdin um háveturinn. Þannig takast félagarnir birtan og myrkrið sífellt á og skipta með sér verkum eftir árstíðanna þrá.

Farsímaæði

Með þessari öru þróun er þess ekki langt að bíða að kornabörn fái símtæki fest á sig við fæðingu svo þau geti við fyrsta tækifæri tekið þátt í kapphlaupi foreldra sinna. Heyrst hefur að ekkert mál sé að komast í samband við þá framliðnu, hvar sem þeir eru nú staddir, svo framarlega sem farsíminn er tekinn með yfir móðuna miklu. Til þess að fullkomna þjónustu símafyrirtækjanna er unnið sleitulaust að farsímavæðingu Lykla-Péturs við Gullna hliðið svo að viðskiptavinir þeirra geti í framtíðinni náð sambandi við dyravörðinn sjálfan til þess að semja um dvöl í himnaríki og panta um leið hótel í þeim klassa sem eftirlaunaréttindi hvers og eins segja til um.

Fjölmenningarsamfélag

Í byrjun nýrrar aldar myndast litskrúðugt fjölmenningarsamfélag blandað fólki frá ólíklegustu heimshornum. Það flytur inn siði síns heimalands er kryddar þjóðlífið fyrir vikið og opnar gáttir að fjölbreyttu mann- og menningarlífi. Smáþjóðin er stór í sniðum, komin með heimsborgaralegt yfirbragð og fjölbreytta matargerð. Viðskiptafrömuðir hennar fara í víking á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði og leggja undir sig erlendis hvert stórfyrirtækið á fætur öðru. Landið og fólkið sem þar býr siglir hraðbyri inn í alþjóðavæðinguna.

Búðarglugginn

Atvik þetta verður til þess að maðurinn dvelur um hríð á sjúkrahúsi og missir af skipinu. Glæsikona, eigandi verslunarinnar, kennir sér um slysið og byrjar að sinna einstæðingnum í spítalalegunni. Eftir skamman tíma verða þau ástfangin og slegið er upp brúðkaupi fljótlega eftir að maðurinn nær heilsu og kemst á fætur á ný. Hann á ekki afturkvæmt á sjóinn heldur hellir sér út í félagsmál, stofnar stjórnmálahreyfingu og verður að lokum vinsæll landsfaðir þjóðar sinnar.

Ást og pípulagnir

Stúlkan á erfitt uppdráttar þar sem hún er eina konan innan um kröftuga orkubolta. Karlarnir gera gys að henni, áreita hana kynferðislega og reyna að koma henni til lags við sig þegar færi gefst. Hún herðist upp, hrindir pípurunum frá sér einum af öðrum og missir að lokum áhuga á karlmönnum.
Pípulagnirnar eiga hug hennar allan og fer málmurinn og tól ýmiss konar fimlega í höndum hennar, fangi eða klofi. Rörunum er sveiflað til og frá eða þau söguð og beygð eftir verkþætti hverju sinni. Karlmennska málmsins verður unaður konunnar og leikur hún sér að honum og stjórnar eftir þörfum sínum.
Hið mjúka nær fullu valdi yfir því harða.

Ást og málning

Við verklok eru félagarnir orðnir skrautlegir að sjá með litaslettur á andliti og höndum og kemur fyrir að háraliturinn hafi breyst til muna. Þeir finna þá hjá sér þörf fyrir að halda upp á árangurinn með því að eiga rómantíska verklokanótt í húsnæðinu og skynja þannig betur áhrif litanna á kynlífið og njóta vímunnar í botn. Þannig vígja þeir hvert og eitt húsnæði fyrir viðskiptavini sína sem flytja síðan ánægðir inn í sælureit framtíðarinnar.

Bjórmenning

Á skemmtistað er haldin bjórhátíð þar sem breiðskjáir á veggjum sýna poppmyndbönd og tónlistin yfirgnæfir skvaldrið á staðnum. Unga fólkið er kátt og drekkur að víkinga sið um leið og það horfir á myndirnar eða dansar úti á gólfinu með glös í hendi. Nú er stuð og nóg af bjór og allt þarf að gerast í einu. Einum úr hópnum leiðist en tekur til sinna ráða sér til skemmtunar með því að henda á gólfið hverju bjórglasinu á fætur öðru eftir að hafa drukkið úr því. Að endingu eru glerbrotin í þúsundavís dreifð um dansgólfið þegar gestirnir yfirgefa staðinn seint og síðar meir. Eigandinn nær sökudólgnum og spyr um ástæðu þessarar ruddalegu hegðunar. Hann svarar um hæl: „Það er svo gaman að heyra glösin brotna.“

Slaufumaðurinn

Fremstu herrafataverslanir bæjarins slást um slaufumanninn og auglýsa sérstaklega tímana hans því að biðraðir eru eftir þjónustunni. Þá kemur í ljós að hann selur vörur tvöfalt á við aðra verslunarmenn og viðskiptin blómstra alls staðar þar sem hann er til staðar. Hann fer því að halda námskeið heima hjá sér fyrir menn sem vilja læra listgreinina og komast færri að en vilja. Þeim sem ná ekki réttu handtökunum á hnýtingunum þykir auðveldara að kalla á forngripinn heim til þjónustu þegar mikið liggur við eins og hvern annan iðnaðarmann. Það líður því ekki á löngu þar til slaufuherrann er orðinn einn af skattkóngum höfuðstaðarins og eftirsóttur meðal þotuliðsins. Sumir telja hann að auki verja hluta af hagnaðinum í neðanjarðarhagkerfinu.

Jarðsprengjan

Fjölmargir hafa atvinnu og gróða af því að framleiða vopn ýmiss konar til varnar og árása á einstaklinga eða þjóðir. Tæknimenn eru önnum kafnir við að þróa leiktæki dauðans og nýta sér hátækni nútímans til þess að gera þau sem fullkomnust. Kappsamir seljendur virðast ekki hugleiða þjáningu allra þeirra saklausu borgara sem líða líkamlegar kvalir eða eiga í andlegu böli ævilangt vegna afleiðinga drápstækja þeirra. Hvað þá bera virðingu fyrir öllum þeim sem drepnir eru af þeirra völdum

Lesa meira

Aðrar bækur