Vinjettur XI
Í Himalajavinjettum sem eru 43 talsins opnar Ármann Reynisson lesandanum sýn inn í lítið þekktan heim með stórbrotna náttúru og menningararfleifð. Hann dvelst meðal heimamanna, kynnist þannig hjarta þjóðanna sem þar búa og túlkar af næmni andrúmsloftið í sögunum. Flest sem höfundurinn sér, heyrir og upplifir, verður að neista í lifandi frásögn en hann lætur hugmyndaflugið ráða ferðinni. Sögurnar eru frá Mombai, Kasmír, Himachal Pradesh, Nepal, Sikkim, VesturBengal og Bútan.
Vinjetturnar hafa haslað sér völl á fyrsta áratug 21. aldar bæði innanlands og utan og þykja bera ferskan blæ inn í íslenskar bókmenntir. Þær eru orðnar 473 samtals í 11 tvítyngdum bókum og hafa verið þýddar á ensku, þýsku, dönsku, norsku, sænsku, finnsku, færeysku, grænlensku og esperanto. Vinjetturnar eru tilvaldar til íhugunar og upplesturs við flest tækifæri.
Kaflar
Fílaeyjan
Út með ströndu Mombai er Fílaeyjan trjágróðri klædd frá hlíðartoppi niður í fjöru. Þangað er um stundar sigling frá ,,Hliði Indlands´´ og ánægjulegt er að virða fyrir sér á meðan hið risastóra hafnarsvæði og borgina er teygir anga sína vítt og breitt í fjarska. Á eynni eru misstórir hellisskútar sem í árdaga voru nýttir til helgihalds hindúa áður en mannfólkið tók upp á því að byggja vegleg hof guðunum til dýrðar. Súlur eru höggnar í klettinn til hvorrar handar við inngang þeirra.
Kasmír
Saga Kasmírs er þyrnum stráð. Landið hefur gengið kaupum og sölum í refskák stjórnmálamanna í aldanna rás án nokkurs tillits til óska eða þarfa landsmanna. Landsvæðið er púðurtunna, hvarvetna hermenn að sjá með alvæpni sér í hönd; liggur milli þriggja heimsvelda sem öll vilja deila þar og drottna. Kasmírbúar þrá í hjarta sínu að vera sjálfstæð þjóð en þykir betra að vera undir stjórn núverandi stórveldis en hinna tveggja. Enginn veit hvort draumur þeirra á eftir að rætast. Íbúarnir eru stoltir af uppruna sínum og elska heitt landið sitt.
Gróðurhúsaáhrif
Á sama tíma geta ríku þjóðirnar sem menga andrúmsloftið, langt umfram það sem eðlilegt getur talist, ekki komið sér saman um ráðstafanir til þess að draga úr þessarri óheillavænlegu þróun. Aðvaranir vísindamanna eru líkastar vindi sem um eyrun þjóta. Viðamiklar alþjóðlegar ráðstefnur eru haldnar með tilheyrandi sýndarmennsku og þær skila takmörkuðum árangri í baráttunni gegn hugsanlegri tortímingu jarðarinnar. Ráðamönnum þykir þægilegt að bíða og sjá til hvað gerist á næstu glæsistefnu sem haldin verður. Ávallt koma nýir leiðtogar á fundina með ráðgjafa sína án nokkurra varanlegra lausna. Hátækni þjóðir hafa orðið bruðlinu að bráð sem efnalitlu löndin hafa að litlu leyti komist í kynni við. Ofaldar þjóðir vilja lítið gefa eftir af þægindum sínum þegar á reynir. Líklega skaðar græðgin smám saman geðheilsu þeirra sem grefur að lokum undan velferðinni. Jarðarbúar þurfa nú þegar að sýna samtakamátt sinn, rísa á fætur og stappa niður fótum, hrópa og kalla eftir aðgerðum áður en það verður of seint fyrir afkomendur þeirra.
Fæðingarstaður Búddha
Það snertir hjartastreng að fylgjast með búddískri trúariðkun og ekki síst að finna fyrir trúarhitanum sem fólk er ekki feimið við að bera á torg. Á þann hátt ná búddistar sambandi við alheimssálina. Búddatrúin hefur lifað og dafnað allan þennan tíma án yfirgangs meðan stundarfyrirbæri hverskonar rísa hátt um tíma í veröldinni og falla síðan í gleymsku og dá. Innan tíðar er myrkur skollið á en birta er í huga þess sem vippar sér endurnærður úr kerrunni.
Snjómaðurinn
Í Himalajafjöllum býr snjómaður í stærðar helli með konu sinni og fjórum börnum. Fjölskyldan er samhent og lifir góðu lífi á veiðum og gróðri þeim sem fjöllin hafa upp á að bjóða. Og margt tínist til þegar eftir er grennslast á þessu víðáttumikla fjalllendi. Eldiviður er meira en nægur til upphitunar og eldamennska á hlóðum er umfangsmikill þáttur í heimilishaldinu. Á sumrin er tími fæðuöflunar hvers konar og hjálpast fjölskyldan í sameiningu að við þau verk. En yfir vetrarmánuðina liggur hún að mestu í þægindum sínum undir feldi heima við, segir sögur úr fjöllunum og safnar kröftum fyrir lífsbaráttu næsta árs. Enginn veit með vissu hvar bústað snjómannsins er að finna því hann heldur sig víðs fjarri mannabyggðum og kraftaverk er ef mennsk vera ber hann augum. Annað slagið sjást risastór spor í snjónum og þá vita menn hver hefur verið á ferð.
Ekið um Bútan
Það fer ekki milli mála að land sem er fjalllent er ekki ákjósanlegt fyrir hraðbrautir né járnbrautasamgöngur. Engu að síður liggja ágætir vegir, þokkalega breiðir með bundnu slitlagi vítt og breitt um landið nema í norðurhlutanum þar sem fjöll eru hvað hrikalegust. Vegakerfið er líkast rússibana sem liggur upp og niður þúsundir metra stundum hangandi í fjallshlíðunum eða þá hann sveigir til skiptis til hvorrar hliðar. Eftirtektarvert er hversu mikill gróður er víða í hlíðum frá efstu tindum niður í hyldjúpan dal þar sem ólgandi fljót streymir fram. Fjölbreytt flóra af trjám og runnum í grænum litbrigðum setur svip sinn á landslagið og áberandi er þjóðartréð, kýprusviðurinn. Meðan ekið er um fáfarna vegi landsins og horft út um gluggann er engu líkara en að maður sé staddur á myndlistarsýningu. Gróðurinn er fjölbreyttur að stærð og gerð og inn á milli sjást blómstrandi runnar í margvíslegum litum, hvít blóm hér eða fjólulituð þar, rauð hérna eða gul þarna. Sumar trjátegundirnar hafa fellt lauf og aðrar skarta rauðbrúnum lit. Í sólskini magnast litadýrðin upp í töfraveröld en þegar ský dregur fyrir fellur gráblár blær yfir stór svæði. Stundum grúfir drungalegt skýjaþykkni yfir hlíðunum eða dulúðlegur þokuslæðingur hylur flest og þá grillir í dökkan gróður eins og um skuggamynd væri að ræða. Leiktjaldið er síbreytilegt og augað er allan daginn upptekið við að fanga ljómann.