Vinjettur XII

Í byrjun níunda áratugs 20. aldar kemur Ármann Reynisson heim úr viðskiptanámi sínu í Lundúnum. Hann stofnar verðbréfafyrirtækið Ávöxtun í vanþróuðu fjármálaumhverfi áratugum á eftir öðrum vestrænum löndum og auk þess fjandsamlegt frumkvöðlum á því sviði. Fyrirtækið brýtur blað í viðskiptasögunni m.a. hvað snertir ávöxtun fjármuna og fjárfestinga. Í vinjettum XII segir höfundurinn frá þessu magnþrungna tímabili í lífi sínu í 43 sögum af yfirvegun og bestu samvisku. Hann leiðir lesandann allt frá stofnun Ávöxtunar, uppgangi og blómatíma fyrirtækisins, selskapslífi á heimili sínu sem þykir ekki síður nýlunda og einnig frá opinberu lífi þessa tíma. Þá fjallar höfundurinn um Ávöxtunar­ hrunið og alræmt „opinbert einelti“ sem fyrirtækið verður fyrir frá stofnun þess en beinist síðan að Ármanni persónulega í áraraðir eftir fall Ávöxtunar.

Ávöxtunarvinjetturnar eru til umhugsunar eftir að stjórnkerfi sömu afla og gera hryðju­verkaárás á verðbréfafyrirtækið rústar fjárhag þjóðarinnar tuttugu árum síðar, með ömurlegum afleiðingum fyrir land og þjóð.


Kaflar

Viðskipti í fjötrum

Í byrjun níunda áratugs tuttugustu aldar er viðskiptalífið í föstum skorðum stórveldanna ,,Eimskipafélagsins“ með veldi sitt að stórum hluta í höfuðborginni og ,,Sambandsins“ sem ræður ríkjum meira úti á landi. Þau bera höfuð og herðar yfir alla aðra og beita óspart einokunaraðstöðu sinni og losa sig þannig við samkeppnisaðila. Veldin tvö eiga tök í tveim valdamestu stjórnmálaflokkunum. Þar með hafa þau beinan aðgang að fjármunum í ríkisbönkunum með hagstæðum lánum sem verða að litlu á gjalddögum því verðbólgan sér um að rýra verðgildi þeirra. Það ríkir köld kurteisi á milli þessara voldugu viðskiptablokka. Inn í apparötin eru flokksgæðingar ráðnir, oft með meira tilliti til skoðana en kunnáttu, og gegna öllum lykilstöðum.

Biðstofa Bankastjóra

Á efstu hæð í ríkisbankanum er ,,Hið allra heilagasta,´´ skrifstofa bankastjóra og biðstofa fyrir þá sem fara á hans fund. Engu er til sparað með viðarinnréttingar sem eru þunglamalegar og teppi er út í hvert horn. Á veggjum hanga landslagsmyndir til augnayndis fyrir þá sem sitja og bíða eftir áheyrn, oftast vel til hafðir en þungbúnir. Því líf og velferð hvers og eins er í höndum bankastjórans. Í einu horninu situr hofmóðugur móttökustjóri sem skráir niður nöfn þeirra sem koma. Hann fylgist grannt með hverjum og einum sem jafnan er búinn að bíða langan tíma. Fólk byrjar að safnast saman fyrir utan bankahöllina í hvaða veðri sem er, stundu áður en aðaldyrnar eru opnaðar klukkan níu að morgni. Síðan tekur við seta í biðstofunni sjálfri en viðtalstími hefst ekki fyrr en klukkan tíu og getur dregist fram til hádegis.

Aðdragandi að stofnun Ávöxtunar

Fjármálalífið á Íslandi er líkast afdalabæ sem ekki er kominn í vegasamband. Ríkisvaldið heldur í alla þræði á bönkum sínum í gegnum bankastjóra, oftast uppgjafa stjórnmálamenn. Auk þess starfa gamaldags sparisjóðir sem að vísu gera sitt gagn fyrir ,,litla manninn´´ svo langt sem það nær en eru beintengdir stjórnmálum. Í einkageira viðskiptanna ræður annars vegar ,,Kolkrabbinn´´ ríkjum í flestum fyrirtækjum landsins sem eitthvað kveður að með Eimskip í fararbroddi og deilir og drottnar í gegnum pólitísk bræðrabönd. Hin valdablokkin er,, Sambandið´´ ,ríki í ríkinu, samtök bænda sem rekur iðnaðar- og þjónustufyrirtæki fyrir landbúnaðinn auk öflugs innflutnings, banka og tryggingastarfsemi. Sami köngulóavefurinn liggur í gegnum allt stjórnkerfið sem er gegnsýrt af pólitísku framapoti án tillits til hæfileika og færni ríkisstarfsmanna. Og aldagömul þrælslund er almenn.

Nýjung í selskapslífi borgarinnar

Veislan vekur athygli og gestir eru ósparir að segja frá upplifun sinni og áhugaverðum persónum sem þeir hitta í boðinu. Og ekki síst gestgjafanum sem gerir hlutina á annan máta en tíðkast hefur. Með reisugildinu góða innleiðir Ármann nýja siði og áherslur í selskapslíf borgarinnar.

Forstjórinn ungi

Við heimkomuna er Ármann orðinn að fullmótuðum manni. En það sem háir unga forstjóranum er takmörkuð lífsreynsla og hversu heimurinn er varasamur. Hann gerir sér ekki nægjanlega grein fyrir því að vegir lífsins eru hálir og ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Þá er illa séð í samfélaginu þegar einn skýst fram úr öðrum á veraldlega vísu, svo ljóma stafar af, og ekki síst af jafnöldrunum. Einnig er litið hornauga að maðurinn festir ekki ráð sitt og er laus og liðugur eins og síamskötturinn sjálfur. Og frumkvöðlastarf í vanþróuðum fjármálaheimi býður hættunni heim. Ungi maðurinn tekur lítið mark á aðvörunum sem hann fær frá sér reyndari mönnum og stígur ekki varlega til jarðar. Hann er áræðinn og fer sínu fram í þjóðfélagi sem er ekki laust við þrælsótta gagnvart þröngsýnum valdakjarna sem rís á afturfæturna þegar stuggað er við honum.

Blómatími Ávöxtunar

Eftir þriggja ára sleitulaust uppbyggingarstarf forstjórans unga eru hjólin farin að snúast verulega hratt og tími kominn til þess að endurskipuleggja reksturinn. Ávöxtun hefur árið 1986 yfirtekið alla hæðina að Laugavegi. Þar eru fjögur skrifstofuherbergi, fundarstofa og alrými með góðri vinnuaðstöðu fyrir fjóra starfsmenn og biðstofu. Innréttingar sem forstjórinn leggur línurnar fyrir eru smekklegar, án íburðar og listaverk samtíma myndlistamanna prýða veggi.

Áhlaup á Ávöxtun

Á þeim árum sem Ávöxtun starfar gerir forstöðumaður bankaeftirlitsins opinbert áhlaup árið 1986 á verðbréfafyrirtækið – fyrir utan minni háttar skærur á bak við tjöldin. Embættismaðurinn sendir ríkissaksóknara bréf með ásökunum um lögbrot, eftir þó nokkrabið verður ekkert að málatilbúnaði að hálfu embættisins. Afriti af bréfinu er laumað í hendur helstu fjölmiðla landsins svo þeir geti fjallað í æsifréttastíl um málið. Það bregst ekki að fréttastofa ríkisfjölmiðilsins, sú áhrifamesta í landinu slær upp stórfrétt. Að öðru leyti fjallar hún varla um starfsemi Ávöxtunar.

Ávöxtun fimm ára

Undir lok hátíðarinnar heldur Ármann Reynisson fleyga ræðu og er góður rómur gerður að henni. Þar á eftir líður yfir föður hans sem fellur á parketgólfið – hann sendur í sjúkrabíl á sjúkrahús. Nánustu ættingjar og vinir ljúka kvöldinu með gullnar veigar í glösum og ljúfu meðlæti á Smáragötuheimilinu. Í miðju hófinu mætir faðirinn hress í bragði og honum er fagnað innilega. Það kemur síðar á daginn að höfðinglegri erfisdrykkja fyrirtækis hefur vart verið haldin.

Hryðjuverkaárás

Um helgina dynja yfir upptrekkt viðtöl við pólitíkusinn klóka í ríkisfjölmiðlinum og Stöð 2, um efni ræðu hans á sellufundinum. Glókollur ,,eins og hann er jafnan kallaður´´ fer mikinn og eys fréttum yfir landsmenn af málsnilld sinni og yfirborðslegri þekkingu á fjármálamarkaðinum en þar hefur hann varla sést og ekki vitað til að hann hafi nokkurn áhuga á að þróa markaðinn til nútíma horfs. Án þess að nefna Ávöxtun á nafn má skilja við hvaða fyrirtæki er átt. Það fer um Ármann Reynisson sem fylgist heima með hryðjuverkaárásinni á fyrirtæki sitt í beinni útsendingu og vonar í leiðinni að viðskiptavinirnir haldi ró sinni eins og hann gerir sjálfur. Að öðru leyti notar forstjórinn helgina að ræða við meðeigandann, auk nokkurra ráðhollra vina, um árásina og hvernig eigi að bregðast við henni. Þess á milli heldur hann sér í andlegu jafnvægi við garðyrkjustörf í listigarðinum sínum.

Svartur Mánudagur

Það er augljóst mál að brotsjór hefur riðið yfir Ávöxtun og skipið er komið hættulega mikið á hliðina. Höggvið hefur verið á slagæðina og blóðið streymir kröftuglega úr henni. Álagið á forstjórann er yfirþyrmandi og hann fær slæman höfuðverk sem verður viðvarandi um hríð. Vinnudagurinn er í lengra lagi og reynt er eftir fremsta megni að ná tökum á aðstæðunum.

Níðingsverk

Þegar Ármann sér hvað verða vill tekur hann málin í sínar hendur og ákveður að fara í hungurverkfall og fremja sjálfsmorð, ef málið leysist ekki, að þrem sólarhringum liðnum. Fanginn gargar á alla þá sem ætla að breyta áætlun hans og er staðráðinn í að ná fram rétti sínum. Níðingsverkið verður foreldrum Ármanns, sem reynast honum alla tíð sem traustasti klettur, ofviða og þau finna fyrir heilsubresti enda orðin langþreytt á djöfulskapnum sem sonur þeirra er beittur. Ráðuneytisstjóranum ofbýður ástandið og að sólahring liðnum er Ármanni og foreldrum hans skipað að undirrita ,,lausnarplagg´´ sem þau lesa ekki vegna geðshræringar. Forstöðumaður Kvíabryggju telur þetta ljótustu endalok fangavistar á staðnum. Ármann er sendur til síns heima í skjóli nætur.

Eftirskjálfti

Aðförin að Ármanni í Ávöxtun er að mestu á enda runnin. Hinir mörgu aðkomendur ,,rómarleiksins“ sem búnir eru að beita forstjórann fyrrverandi og fyrirtæki hans einelti á einn eða annan hátt í langan tíma, mistekst gjörsamlega að brjóta niður andagift hans og mannlega reisn. Og Ármann Reynisson lætur aldrei neitt, sem honum er boðið upp á, smækka sig.

Lesa meira

Aðrar bækur